Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Evrópuleikur og alls konar annað

Íþróttavikan býður upp á ýmislegt, heima og að heiman. Meðal annars verður Evrópuleikur á KA-svæðinu, bikarkeppni í körfubolta er komin af stað og kvennalið Þórs í körfu spilar sinn fyrsta leik á tímabilinu, reyndar tvo leiki  í vikunni eins og karlalið Þórs. Handboltalið bæjarins verða öll í eldlínunni, aðeins eitt þeirra þó á heimavelli. Settur verður punktur aftan við knattspyrnutímabilið og fyrsti alvöru leikurinn í Toppdeild karla í íshokkí á dagskrá fyrsta vetrardag. 

MÁNUDAGUR 20. OKTÓBER - körfubolti

Bikarkeppnin í körfuknattleik karla, VÍS-bikarinn, hófst um helgina með tveimur leikjum í 1. umferð mótsins, 32ja liða úrslitum, og heldur áfram í dag þegar sjö leikir verða spilaðir. Þetta eru því ekki í raun 32 lið heldur 20 lið sem spila í fyrstu umferðinni og fara áfram í 16 liða úrslit ásamt sex liðum sem sitja yfir í þessari umferð. Þórsarar fengu útileik gegn Fjölni.

  • VÍS-bikarkeppni karla í körfuknattleik
    Dalhús í Grafarvogi kl. 19:15
    Fjölnir - Þór

MIÐVIKUDAGUR 22. OKTÓBER - fótbolti, körfubolti

Á miðvikudag er komið að Evrópuleik á heimavelli KA, þegar 2. flokkur félagsins tekur á móti gríska liðinu PAOK í 2. umferð UEFA Youth Leauge. KA sló út lettneska liðið FS Jelgava í fyrstu umferðinni með 2-2 jafntefli í Lettlandi og 1-0 sigri hér heima. 

  • UEFA Youth Leauge
    Greifavöllurinn kl. 14
    KA - PAOK

Seinni leikur liðanna fer fram tveimur vikum síðar, miðvikudaginn 5. nóvember, á Kaftanzoglio-vellinium í Þessalóníku í Grikklandi.

- - -

Á miðvikudagskvöld er loksins komið að fyrsta leik kvennaliðs Þórs í körfubolta. Keppni í 1. deildinni er hafin fyrir nokkru, en fyrsti leikur liðsins frestaðist þar sem Íþróttahöllin var upptekin vegna Pollamóts Þórs í körfubolta og í annarri umferð átti liðið upphaflega að leika við b-lið sem síðan var dregið úr keppni. 

  • 1. deild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Njarðvík b

FIMMTUDAGUR 23. OKTÓBER - handbolti

Þórsliðið hefur verið dálítið brokkgengt í upphafi móts, verið nálægt því að vinna Val á heimavelli, tók stig á móti FH á útivelli í leik sem hefði getað unnist, en tapaði síðan með átta marka mun fyrir HK í Höllinni í liðinni viku. Þórsarar voru jafnir HK að stigum fyrir 7. umferðina, en sátu eftir í 11. sæti, því næstneðsta í deildinni, eftir tapið fyrir HK. Nú er strax komið að öðrum heimaleik þegar Selfyssingar mæta í Höllina á fimmtudag.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:30
    Þór - Selfoss

Selfyssingar eru með stigi meira og eru sæti ofar en Þór, hafa unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli, en Þórsarar hafa aðeins unnið einn leik hingað til og gert tvö jafntefli. Selfoss tapaði með fimm marka mun fyrir FH á heimavelli í síðustu umferð.

FÖSTUDAGUR 24. OKTÓBER - körfubolti

Eftir tvö stór töp karlaliðs Þórs í körfuknattleik á heimavelli í 1. deildinni er komið að fyrsta útileik liðsins í deildinni á föstudag. Þórsarar renna vestur í Stykkishólm og mæta þar heimamönnum í Snæfelli. 

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttamiðstöðin í Stykkishólmi kl. 19:15
    Snæfell - Þór

Snæfell vann Fylki með 12 stiga mun í fyrsta leik, en tapaði með átta stiga mun fyrir Selfyssingum á útivelli í 2. umferð. Þórsarar töpuðu heimaleikjum á móti Sindra og Breiðabliki í fyrstu tveimur umferðunum.

LAUGARDAGUR 25. OKTÓBER - fótbolti, handbolti, íshokkí, körfubolti

Lokaumferð neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu verður spiluð á laugardag. KA sækir ÍBV heim á Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum í leik sem snýst reyndar aðeins um það hvort liðið endar í efsta sæti neðri hlutans, sem er þá 7. sæti Bestu deildarinnar í heild. Fyrir lokaumferðina er KA með 36 stig úr 26 leikjum, en ÍBV sæti neðar með 33 stig. Sigri KA eða verði jafnt heldur KA efsta sæti neðri hlutans, en ÍBV á möguleika á að endurheimta sætið með sigri og raðast ofar á markatölu.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
    Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum kl. 14
    ÍBV - KA

- - -

Það er ekki aðeins knattspyrnulið KA sem sækir Eyjamenn heim á laugardag heldur er þar einnig á dagskrá viðureign ÍBV og KA í Olísdeild karla í handknattleik, að hluta til á sama tíma.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja kl. 15:00
    ÍBV - KA

KA hefur farið kröftuglega af stað á Íslandsmótinu í haust og er í 3. sæti deildarinnar með tíu stig eftir sjö umferðir, jafn mörg stig og Afturelding sem er sæti ofar og tveimur stigum á eftir toppliði Hauka. ÍBV kemur í humátt á eftir KA, situr í 5. sætinu með átta stig.

- - -

Eftir frábæra byrjun og sigra í fyrstu þremur leikjunum hefur KA/Þór tapað tveimur leikjum, fyrst heima fyrir Haukum og svo með eins marks mun á útivelli fyrir ÍR. KA/Þór er í 4. sæti Olísdeildar kvenna að loknum fimm umferðum með sex stig, eins og ÍR, en fyrir ofan eru Valur og ÍBV, bæði með átta stig. KA/Þór sækir Fram heim í 6. umferðinni á laugardag, en Fram er með stigi minna og sæti neðar en KA/Þór.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    Lambhagahöllin í Úlfarsárdal kl. 15:30
    Fram - KA/Þór

- - -

Eftir frækilega för SA Víkinga í austurvíking, til Vilnius í Litháen þar sem liðið endaði í 3. sæti riðils í Continental Cup og vann eistnesku meistarana í framlengingu í æsispennandi leik á sunnudag er loksins komið að alvörunni hér heima. Forkeppni Toppdeildar karla er lokið og komið að fyrsta leik SA Víkinga í A-hluta deildarinnar, þar sem SA, SR og Fjölnir eigast við í vetur.

Á laugardag mætast liðin sem barist hafa um Íslandsmeistaratitilinn í úrslitakeppni Toppdeildarinnar undanfarin ár, SA og SR.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
    SA - SR

Þessi lið mættust í Skautahöllinni á Akureyri í forkeppni Toppdeildarinnar fyrir skemmstu og fóru gestirnir með sigur af hólmi, lokatölur 4-6.

- - -

Það verður stutt hvíld á milli leikja hjá kvennaliði Þórs í 1. deildinni í körfuknattleik, heimaleikur á miðvikudag og svo útileikur strax á laugardag. Nú er komið að heimsókn í efra Breiðholtið þar sem Þór mætir liði Aþenu. Þór og Aþena hafa mæst oft á undanförnum árum, í Bónusdeildinni á síðustu leiktíð og nokkur ár í röð í 1. deildinni áður en Þórsliðið fór upp. Mikil barátta hefur einkennt þá leiki enda hefur leikstíll Aþenu verið mjög harður og fast tekið á andstæðingum. Bæði lið eru þó allnokkuð breytt frá fyrra ári. 

  • 1. deild kvenna í körfuknattleik
    Unbroken-höllin í Breiðholti kl. 18
    Aþena - Þór

- - -

Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru í meistaraflokkum, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð á mánudögum hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.