SA sækir Fjölni heim í fyrsta leik á morgun

Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí hefur leik á Íslandsmótinu, Toppdeildinni, á morgun þegar liðið mætir Fjölni í Egilshöllinni kl. 16:45.
Nokkrir meistaraflokksleikmenn hefja þó leik í kvöld þegar Jötnar sækja Húna heim í Egilshöllina kl. 19:45, en það eru Junior-lið sömu félaga. Lið Jötna er sterkt enda margir ungir leikmenn nú þegar í lykilhlutverkum í meistaraflokki. Íslandsmótið byrjar á forkeppni þar sem þrjú meistaraflokkslið og tvö Junior-lið mætast í einfaldri umferð. Nánar er fjallað um nýtt fyrirkomulag neðar í fréttinni.
- Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
Egilshöllin kl. 19:45 á föstudag
Húnar - Jötnar
Egilshöllin kl. 16:45 á laugardag
Fjölnir - SA
Bikarinn kominn „heim“ aftur. Íslandsmeistarar SA 2024-25. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Skautafélag Akureyrar er ríkjandi Íslandsmeistari í karlaflokki eftir öruggan 3-0 sigur á Skautafélagi Reykjavíkur í úrslitaeinvígi í vor. SR-ingar höfðu hampað bikarnum í tvö skipti þar á undan, en SA er engu að síður langsigursælasta lið landsins og varð Íslandsmeistari í 24. skipti í vor. Við það tækifæri hafði formaður félagsins og fyrrum margfaldur Íslandsmeistari í íþróttinni, Sigurður Sveinn Sigurðsson, þau orð að lið SA síðastliðinn vetur væri það sterkasta í sögu félagsins. Lið SA verður áfram að teljast mjög sigurstranglegt með heimkomu tveggja heimaalinna leikmanna og tveggja erlendra leikmanna, þó á móti haldi lykilmenn út fyrir landsteinana og nokkrir sem ekki verða með í vetur.
Tveir koma heim og tveir erlendir
SA hefur fengið tvo öfluga leikmenn aftur heim. Markvörðurinn Jakob Jóhannesson tók sér námsleyfi í fyrravetur, en snýr nú aftur á svellið. Hann var áður fyrsti markvörður karlaliðsins og með bestu tölfræði markvarða deildarinnar um nokkurra ára skeið áður en hann fór í leyfið, að því er fram kemur í frétt á vef SA. Þá er Arnar Kristjánsson, tvítugur varnarmaður, snúinn aftur heim eftir að hafa spilað með EJ Kassel í Þýskalandi. Arnar er einn efnilegasti varnarmaður landsins, reyndar mjög sóknarsinnaður, og á nú þegar að baki 13 A-landsleiki. Hann hefur verið valinn besti varnarmaður á heimsmeistaramótum með unglinga- og ungmennalandsliðum Íslands. „Arnar mun styrkja varnarlínuna okkar og kemur auk þess með glimrandi sóknarleik sem verður gaman að fylgjast með í vetur,“ segir í frétt SA. Félagið hefur einnig fengið til sín 18 ára gamlan belgískan leikmann, Robbie Delport. Hann kemur til SA frá Chiefs Leuven í Belgíu og klár í slaginn því hann er á leikmannalista Jötna í kvöld.
Aftur á móti er hinn öflugi varnarmaður Gunnar Arason haldinn á vit nýrra ævintýra og mun spila í Hollandi í vetur. Annar lykilmaður, Ólafur Baldvin Björgvinsson, er einnig farinn á vit nýrra ævintýra og spilar með ungmennaliði Esbjerg í Danmörku í vetur. Varnarjaxlinn Björn Már Jakobsson hefur lagt skautana á hilluna eftir áratugi í fremstu röð og Andri Freyr Sverrisson, sem einnig hefur verið lengi að, verður ekki með í vetur. Bræðurnir Ágúst Máni og Bergþór Bjarmi Ágústssynir verða líklega að mestu uppteknir við annað, Bergþór í námi á Hvanneyri og Ágúst Máni þar með uppteknari við bústörfin í fjarveru bróður síns.
Tveir af „gamlingjunum“ í liði SA í fyrravetur, Björn Már Jakobsson og Andri Már Mikaelsson. Björn Már er hættur eftir áratugi í fremstu röð. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Í dag var svo tilkynnt um nýjan bandarískan leikmann. Samið hefur verið við Hank Nagel, 25 ára varnarmann frá Minnesota í Bandaríkjunum, miklu íshokkíríki. „Hank er mjög sterkur varnarmaður en lipur miðað við stærð (193cm) og bætir gæðum í sóknarleikinn hjá SA Víkingum. Hank kemur einnig til með að þjálfa hjá félaginu en hann verður aðstoðarþjálfari SA kvenna og aðstoðar einnig í yngri flokka þjálfun,“ segir um nýja liðsmanninn á vef SA. Hann kemur frá Spáni þar sem hann spilaði með H.C. Jaca á síðastliðnu tímabili.
Nýtt fyrirkomulag í Toppdeild karla
Keppni á Íslandsmótinu, í Toppdeild karla, er með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur. Tvær meginástæður eru fyrir breytingu núna. Annars vegar stendur aðstöðuleysi íþróttinni nokkuð fyrir þrifum og hið unga Skautafélag Hafnarfjarðar, sem tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótinu í fyrra, fær ekki æfingatíma í skautahöllum Reykjavíkur og getur því ekki sent lið til leiks í ár. Þar með eru aðeins þrjú lið eftir í meistaraflokki og þar kemur að hinni ástæðu breytinganna. Samkvæmt kröfum Alþjóða íshokkísambandsins (IIHF) er lágmarkið að aðildarþjóðir spili fjögurra liða deild til að fá leyfi til þátttöku á Heimsmeistaramótum.
„Eftir að hafa skoðað alla mögulega kosti í erfiðri stöðu vegna aðstöðuleysis og brotthvarfs SFH, varð sú lausn sem leikið verður eftir í vetur ofan á,“ segir í frétt Íshokkísambandsins. Á Íshokkíþingi í sumarbyrjun var ákveðið að koma á fót svokallaðri Junior-deild. Skautafélag Akureyrar og Fjölnir tefla fram liðum í Junior-deildinni, en ekki Skautafélag Reykjavíkur. Niðurstaðan varðandi Toppdeildina er að sameina Toppdeild karla og Junior-deildina, eða blanda þeim saman, og spila tíu leikja forkeppni þar sem meistaraflokksliðin þrjú og Junior-liðin tvö mætast í einfaldri umferð, sem eru samtals tíu leikir.
Forkeppninni lýkur 7. október og verður deildinni þá skipt í A- og B-flokk, þar sem meistaraflokksliðin þrjú halda áfram í A-flokki og spila innbyrðis áttfalda umferð. Hins vegar halda Junior-liðin tvö áfram í B-flokki og mætast tólf sinnum sinnum, á sex tveggja leikja helgum.
Junior-liðin hafa síðan samkvæmt ákveðnum reglum nokkuð vítækar heimildir til að styrkja sig með leikmönnum meistaraflokks þegar þau leika við meistaraflokksliðin í forkeppninni, en leikir milli meistaraflokksliðanna annars vegar og Junior-liðanna hins vegar verða væntanlega nokkuð ójafnir, eins og sést kannski best á úrslitum fyrsta leiks Fjölnis og Húna (Junior-liðs Fjölnis) sem endaði með 26-0 sigri Fjölnis.
Liðin taka hins vegar ekki með sér stig úr forkeppninni heldur byrja með hreint borð þegar keppni í A- og B-flokkum hefst. Sama gildir um leikmennina, þeir taka ekki með sér punkta úr leikjum forkeppninnar.