Fara í efni
Körfuknattleikur

Íshokkílandsliðið öruggt með verðlaun

Karlalandslið Íslands í íshokkí á svellinu á Nýja-Sjálandi. Myndin er fengin af vef ÍHÍ.

Karlalandsliðið í íshokkí, sem hefur á að skipa fjölmörgum Akureyringum í leikmannahópnum og starfsliðinu eins og akureyri.net hefur áður sagt frá, leikur lokaleik sinn í 2. deild B á Heimsmeistaramótinu núna í morgunsárið, eða kl. 8 að íslenskum tíma. Liðið hefur nú þegar tryggt sér verðlaunasæti á mótinu, bara spurning hvort strákarnir fá gull, silfur eða brons.

Gullið verður því miður að teljast ólíklegt því Georgíumenn hafa unnið alla leiki sína til þessa, einn þeirra reyndar í framlengingu, og mæta liði Tælands sem hefur tapað öllum sínum leikjum. Georgíumenn eru efstir með 11 stig, en Íslendingar og Nýsjálendingar eru með níu stig og eigast einmitt við í lokaleik mótsins. Sigurliðið í þeim leik endar í öðru sæti, nema ef Georgíumenn tapa óvænt fyrir Tælendingum.

Skellur í fyrsta leik, svo þrír sigrar í röð

Íslenska liðið fékk skell í fyrsta leik, tapaði 0-4 fyrir Georgíu. Annar leikurinn varð svo að markaveislu og endaði með 8-4 sigri Íslands á liði Búlgaríu. Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar í þeim leik, Jóhann Már Leifsson skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar, Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði tvö mörk, Uni Blöndal skoraði eitt, Heiðar Gauti Jóhannesson átti tvær stoðsendingar og þeir Andri Már Mikaelsson og Matthías Már Stefánsson eina stoðsendingu hvor. Róbert Steingrímsson varði 21 skot, eða 84% þeirra skota sem hann fékk á sig. Jóhann Már Leifsson var maður leiksins í íslenska liðinu.


Gunnar Aðalgeir Arason í kröppum dansi við Georgíumann. Myndirnar með fréttinni eru fengnar af vef ÍHÍ.

Mörkin urðu færri þegar Ísland mætti liði Tævan, lokatölur 2-1 Íslandi í vil. Arnar Helgi Kristjánsson skoraði annað markið og var það hans fyrsta mark fyrir landsliðið. Helgi Ívarsson stóð í markinu og varði 22 skot af 23, eða 95,65%. Helgi var valinn maður leiksins úr röðum íslenska liðsins.

Arnar Helgi Kristjánsson, fyrrum leikmaður SA sem nú spilar í Þýskalandi, fagnar fyrsta landsliðsmarkinu sínu.

Þriðji sigurinn í röð kom svo í fyrrinótt þegar strákarnir unnu lið Tælands, 6-3. Unnar Hafberg Rúnarsson endurtók leikinn frá sigrinum á Búlgörum, skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar. Jóhann Már Leifsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu. Matthías Már Stefánsson og Hafþór Andri Sigrúnarson áttu eina stoðsendingu hvor. Helgi Ívarsson varði 28 skot eða 90,32%. Ólafur Baldvin Björgvinsson var valinn maður leiksins úr röðum íslenska liðsins.


Ólafur Baldvin Björgvinsson úr SA var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í sigrinum á Tælendingum. Myndin er sótt á vef ÍHÍ.

Lokaleikur liðsins og jafnframt lokaleikur mótsins er svo gegn gestgjöfunum, Nýja-Sjálandi, og hefst hann kl. 8 að íslenskum tíma.

Upplýsingar um keppnina og leiki Íslands má finna á vef mótsins á IIHF.com og á vef Íshokkísambands Íslands.