„Grátlegt, en stoltur af strákunum“

Hallgrímur Jónasson, þjálfari knattspyrnuliðs KA, var stoltur en svekktur í viðtali við mbl.is eftir Evrópuleikinn við danska liðið Silkeborg í kvöld. KA-menn töpuðu 3:2 eftir framlengingu eins og fram kom í umfjöllun Akureyri.net.
„Við gáfum allt í þetta og frammistaðan var heilt yfir frábær,“ sagði Hallgrímur í viðtalinu við mbl.is. „Við gefum Silkeborgar-liðinu tvo flotta leiki í 210 spilmínútur. Framlengingin sker úr um þetta og þeir skora eitthvað draumamark sem tryggir þeim sigurinn, skot upp í skeytin fyrir utan teig,“ sagði Hallgrímur ennfremur.
Hann var sannarlega stoltur af strákunum og öllu KA-fólkinu sem kom að þessum leik. Framundan er hins vegar deildarleikur gegn Breiðablik á sunnudaginn og Hallgrímur sagði að þeir yrðu klárir í þann leik.
Viðtalið við Hallgrím í heild á mbl.is: „Þetta var bara háspenna allan leikinn“