Fara í efni
Kjarnaskógur

Framboð lóða fyrir um 260 íbúðir á ári

Í fyrsta áfanga Móahverfis eru 15 einbýlishúsalóðir eftir. Myndin er úr auglýsingu á lóðaútboði Akureyrarbæjar frá því í september.

Með hliðsjón af húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar er reiknað með úthlutun lóða á Akureyri fyrir allt að 260 íbúðir á ári að meðaltali. Þetta kom fram á kynningarfundi skipulagssviðs Akureyrarbæjar á dögunum, eins og fjallað var um í frétt akureyri.net um íbúafjölda og -þróun.

Tvö helstu uppbyggingarsvæðin í dag og undanfarin þrjú ár eða svo eru Holtahverfi norður, norðan/austan Krossanesbrautar, annars vegar og Móahverfið vestan Síðuhverfis hins vegar, þar sem fyrstu íbúarnir fluttu inn í upphafi mánaðarins. 

  • Í GÆR – HÚSIN SPRETTA UPP Í HOLTA- OG MÓAHVERFUM
  • Í DAG - FRAMBOÐ LÓÐA FYRIR UM 260 ÍBÚÐIR Á ÁRI
  • Á MORGUN ÞÉTTING BYGGÐAR – HAGKVÆM EN UMDEILD
  • Á LAUGARDAG FFÉSTA, VMA, SAK OG 100 HJÚKRUNARRÝMI

Holtahverfi 

Lausar lóðir – Stutt er síðan skipulagssvið Akureyrarbæjar auglýsti lausar lóðir í Holtahverfi. Það eru Hulduholt 18 fyrir parhús, Hulduholt 20-24 fyrir raðhús og Hulduholt 31 fyrir einbýlishús. Þá eru einnig lausar þrjár lóðir við Álfaholt þar sem byggja má parhús, en við þá götu eru nú þegar framkvæmdir í gangi við þrjú hús. Lóðirnar við Álfaholt voru auglýstar í apríl.

Lóðirnar Hulduholt 18, 20-24 og 31 voru nýlega auglýstar lausar til úthlutunar. Mynd: akureyri.is.

Í undirbúningi – Mikil breyting hefur verið gerð á upphaflegu skipulagi við Þursaholt frá því að unnið var með hugmyndir um lífsgæðakjarna. Þar er nú gert ráð fyrir 100 rýma hjúkrunarheimili með möguleika á að stækka og bæta við 40 rýmum síðar. Stefnt er á að útboð á byggingu hjúkrunarheimilis verði auglýst í lok árs, að því er fram kom á kynningarfundinum og í gögnum frá honum. Í tengslum við byggingu hjúkrunarheimilisins er líklegt að beðið verði með að auglýsa tvær fjölbýlishúsalóðir þar til hönnun hjúkrunarheimilisins liggur fyrir. Þetta eru Þursaholt 1 og 3 með 30 íbúðum í tveimur húsum og Þursaholt 2-4 með 20 íbúðum í tveimur húsum.

 

Lausar lóðir í Holtahverfi norður. Efst til vinstri eru fjölbýlishúsalóðirnar Þursaholt 1-3 og 2-4. Skjáskot úr kynningu skipulagssviðs Akureyrarbæjar.

Í undirbúningi – Hinum megin Krossanesbrautarinnar mun íbúðum væntanlega fjölga um 54 á næstu árum. Skipulagi fyrir Miðholt 1-9 hefur verið breytt frá því sem áður var, leyfð hærri hús en áður var gert ráð fyrir og íbúðum fjölgað úr 30 í 54, breytingar sem voru nágrönnum í Miðholti og Stafholti lítt að skapi, eins og Akureyri.net hefur fjallað um. Lóðirnar Miðholt 1-9 voru auglýstar saman sem ein heild. Unnið er að undirbúningi og stefnt að framkvæmdum á næsta ári.

Móahverfi - 1. áfangi

Fullbyggt mun Móahverfið innihalda allt að 1.100 íbúðir. Uppbyggingu hverfisins er skipt í tvo áfanga og er uppbygging 1. áfanga nú komin vel á veg. Nú þegar hefur lóðum fyrir samtals 494 íbúðir verið úthlutað og byggingaleyfi veitt fyrir 304 íbúðum. Aðeins eru eftir 15 lóðir fyrir einbýlishús í þessum hluta hverfisins.

Móahverfið lengst til vinstri á þessari mynd eins og það leit út 20. september 2025. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Móahverfi - 2. áfangi

Búast má við að fyrstu lóðir í 2. áfanga Móahverfis verði byggingarhæfar sumarið 2026, en framkvæmdir við þennan hluta Móahverfisins hófust síðastliðið sumar. Í þessum hluta hverfisins verða 458 til 561 íbúð. 

Í 2. áfanga Móahverfis eru:

  • 13 fjölbýlishúsalóðir með 12-62 íbúðum. Kvöð er um starfsemi á jarðhæð í hluta fjölbýlishúsanna.
  • 5 raðhúsalóðir.
  • 14 parhúsalóðir.
  • 27 einbýlishúsalóðir
  • 1 búsetukjarni með 5-6 íbúðum.

Móahverfið, 2. áfangi til vinstri í lit, en hluti fyrsta áfanga sést hægra megin á teikningunni. Skjáskot úr kynningu skipulagssviðs Akureyrarbæjar.

Næstu uppbyggingarsvæði

Næstu uppbyggingarsvæði á Akureyri samkvæmt húsnæðisáætlun eru á fimm stöðum í bænum. Þau stærstu eru annars vegar í Hagahverfi, vestan Kjarnagötu og hins vegar í norðurjaðri bæjarins, norðan Síðubrautar. Þá eru einnig á dagskrá þrjú minni svæði, Akureyrarvöllur, Naust 3 (safnasvæðið) og Kotárborgir, svæði vestan Gerðahverfis og norðan Þingvallastrætis. Ýmsir óvissuþættir eru varðandi sum þessara svæða og ekki hægt að fullyrða í öllum tilvikum hvort og þá hvenær uppbygging fer af stað, og í sumum tilvikum getur stefnan auðvitað breyst eftir kosningar næsta vor ef breytingar verða á meirihluta bæjarstjórnar.

Til vinstri: Næstu fimm uppbyggingarsvæði á Akureyri. Í miðjunni er myndrænt rammaskipulag fyrir Móahverfi og svæði norðan/vestan Síðubrautar við Grænhól. Húsin næst þessu hverfi eru við Jaðarsíðu. Til hægri má sjá nokkur uppbyggingarsvæði sem ekki eru komin svo langt að reiknað sé með þeim í húsnæðisáætlun enda eru þetta svæði þar sem Akureyrarbær stýrir ekki tímasetningu á uppbyggingu. Skjáskot úr kynningu skipulagsdeildar.

Naust 3 – Drög að deiliskipulagi fyrir Naust 3, eða safnasvæðið þar sem Minjasafnið hefur nýtt húsnæði sem geymslu, voru kynnt árið 2024. Í fyrstu var gert ráð fyrir 30 íbúðum í einbýlis-, par- og raðhúsum. Fram kom í kynningu skipulagssviðs Akureyrarbæjar á dögunum að líklegt sé að uppbyggingarsvæðið muni minnka eitthvað og íbúðum fækka. Það kemur í framhaldi af því að nokkur fjöldi athugasemda barst á kynningartímanum, en ákvörðun um framhaldið hefur ekki verið tekin. Tímasetning á úthlutun lóða liggur ekki fyrir.

Vestan Hagahverfis – Nú er að hefjast undirbúningur að gerð deiliskipulags fyrir svæðið vestan Hagahverfis sem einnig mun ná til hluta Naustaborga, en þar er fyrirhugaður næsti grafreitur Akureyringa, eins og Akureyri.net hefur fjallað um áður. Á hluta af þessu svæði er hugmyndin að uppbygging verði í samræmi við hugmyndafræði um lífsgæðakjarna með áherslu á húsnæði fyrir eldri borgara. Í húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir 590 íbúðum á þessu svæði og stefnt að úthlutun fyrstu lóða árið 2028.

Akureyrarvöllur – Dómnefnd er að störfum sem hefur það hlutverk að undirbúa og sjá um hugmyndasamkeppni um skipulag á Akureyrarvelli og næsta nágrenni. Stefnt er að því að niðurstaða samkeppninnar liggi fyrir í byrjun næsta árs.

Í húsnæðisáætlun er stefnt að útlutun lóða á svæðinu árið 2030 og er miðað við allt að 200 íbúðir, en óvissa um hvernig svæðið mun þróast.

Akureyrarvöllur bíður eftir niðurstöðum úr hugmyndasamkeppni um fyrirkomulag á framtíðaruppbyggingu hans. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kotárborgir – Í aðalskipulagi og húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir um 150 íbúðum á svæði sem kallað er Kotárborgir, norðan Þingvallastrætis þar sem leikskólinn Pálmholt stendur og þar norður af. Miðað er við að úthlutun lóða gæti orðið á árinu 2031. Hins vegar er mikil óvissa með þetta svæði að því er fram kom í kynningu skipulagssviðsins, meðal annars vegna leikskóla og vegtenginga. Vilji er til að endurskoða skipulag athafnasvæða við Súluveg og Hlíðarfjallsveg og kom fram að líklegt væri að svæðið við Kotárborgir yrði hluti af þeirri vinnu. Um framhaldið með þetta svæði er lítið hægt að segja sem stendur. Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði, en hugmyndir núna gera þó ekki ráð fyrir að uppbygging gæti hafist fyrr en eftir nokkur ár í fyrsta lagi. 

Norðan Síðubrautar – Norður af Móahverfi og norður/vestur af Síðubraut er gert ráð fyrir uppbyggingarsvæði sem nær í stórum dráttum frá Grænhóli í norðri suður að Mýrarlóni og að úthlutun lóða þar gæti orðið árið 2032 eða um það bil. Mikil uppbygging hefur átt sér stað handan sveitarfélagamarkanna, í Lónsbakkahverfinu í Hörgársveit, og áhersla á að skipulag þessara tveggja svæða verði skoðað í samhengi. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir tengingu við Lónsbakkahverfið, bæði fyrir akstur og stígakerfi. Akureyrarbær á í samtali við Hörgársveit um þessar tengingar. Í rammaskipulagi fyrir svæðið er gert ráð fyrir skóla og leikskóla norðvestan við Móahverfi (2. áfanga), í beinu framhaldi af Borgarbrautinni. Um tímasetningar á uppbyggingu skóla á þessu svæði er þó ekkert hægt að segja núna því slíkt fer eftir því hvernig staðan verður eftir fjögur til fimm ár. Þar sem ekki er gert ráð fyrir grunnskóla eða leikskóla í núverandi uppbyggingaráföngum Móahverfis (1. og 2. áfanga) hefur frá upphafi verið lögð áhersla á góðar stígatengingar við aðliggjandi hverfi og miðað við að Síðuskóli taki við flestum börnum af þessu svæði, en Giljaskóli kemur einnig til greina.

Þetta svæði nær samkvæmt rammaskipulagi nær alveg að þeim stað þar sem nú hefur verið skipulagt svæði undir smáhýsi fyrir heimilislaust fólk með fjölþættan vanda. Gera má ráð fyrir að skipulag þessa hverfis verði aðlagað skipulagi smáhýsanna, sem þó verða byggð þannig að mögulegt verður að flytja þau ef svo ber undir. Ekki er þó sérstaklega gert ráð fyrir flutningi þó svo uppbyggin hefjist á svæðinu vestan við smáhýsin við Grænhól.

Þrjú smáhýsasvæði í vinnslu

Undanfarið hefur verið unnið að skipulagningu svæða á þremur stöðum fyrir smáhýsi sem ætluð eru fólki án heimilis og með sérstakar húsnæðis- og þjónustuþarfir. Þessi svæði eru við Baldursnes, Grænhól norðan Síðubrautar og Hlíðarfjallsveg handan vegarins á móts við Réttarhvamm. 

Gert er ráð fyrir að uppbygging á þessum svæðum hefjist í byrjun næsta árs og er miðað við 2-3 hús á hverjum stað. Þá er einnig á dagskránni að finna að minnsta kosti tvö svæði í viðbót og er í því sambandi horft til suðurhluta bæjarins.

  • Á MORGUN: ÞÉTTING BYGGÐAR – HAGKVÆM EN UMDEILD
  • Á FÖSTUDAG: FFÉSTA, VMA, SAK OG 100 HJÚKRUNARRÝMI