Fara í efni
KA/Þór

Sigur og tap hjá Akureyrarliðunum

Karlalið Akureyrar í handboltanum áttu misjöfnu gengi að fagna í leikjum gærdagsins. KA vann öruggan heimasigur gegn Stjörnunni, en Þórsarar töpuðu fyrir Haukum í Hafnarfirði. KA er í 3. sæti deildarinnar með 12 stig að loknum níu umferðum, en Þór í 10. sætinu með sex stig.

KA tók á móti Stjörnunni og vann öruggan sigur, leiddi mest með 11 mörkum, en Stjörnumenn klóruðu í bakkan á lokamínútunum. Lokatölurnar 36-31 eftir að KA hafði leitt með sjö marka mun í leikhléi.

KA hafði frumkvæði og forystu nær allan leikinn. Jafnt var þegar um stundarfjórðungur var liðinn. Staðan var 11-10 þegar langt var liðið á fyrri hálfleikinn, en þá komu fimm mörk í röð frá KA og sjö gegn einu á níu mínútum. Forystan orðin sjö mörk þegar fyrri hálfleik lauk. Um tíma í seinni hálfleiknum leiddi KA með 10-11 mörkum, reyndar mest með 12 mörkum. Staðan var 35-25 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir, en gestirnir skoruðu sex mörk gegn einu á lokamínútunum. Það var þó of lítið og of seint til að ná að ógna sigri KA.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði flest mörk KA-liðsins eins og oft áður, alls tíu mörk úr 12 skotum, þar af tvö úr þremur vítaköstum. Hans Jörgen Ólafsson skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna. KA var með ríflega 70% skotnýtingu í leiknum á móti 53% hjá Stjörnunni. Bjarni Ófeigur og Morten Linder báru af í KA-liðinu þegar litið er á tölfræðieinkunnir, Bjarni með 9,45 (10 í sókn) og Morten með 9,18 (10 í sókn).

  • KA - Stjarnan 36-31 (18-11)

Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 10, Morten Linder 8, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 7, Jens Bragi Bergþórsson 4, Arnór Ísak Haddsson 3, Jóhann Geir Sævarsson 2, Aron Daði Stefánsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 15 af 41 (36,6%), Úlfar Örn Guðbjargarson 0 af 5.
Refsimínútur: 0.

Tölfræði leiksins á hbstatz.is

Leikskýrslan á vef HSÍ

Staðan í deildinni

Áhlaup Þórsara dugði ekki

Þórsarar sóttu Hauka heim að Ásvöllum í Hafnarfirði. Fyrir leikinn voru Haukar í 2. sætinu, höfðu unnið sex leiki af átta. Þórsarar sóttu ekki gull í greipar Hauka, en náðu þó góðu áhlaupi þegar langt var liðið á leikinn, minnkuðu muninn niður í eitt mark, en Haukar náðu að sigla sigrinum í höfn á lokamínútunum. Lokatölur 35-31.

Hafnfirðingar höfðu frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn og leiddu með 5-6 mörkum þegar leið á hálfleikinn, staðan 18-12 í leikhléi. Fljótlega í seinni hálfleik söxuðu Þórsarar á forskotið, en Haukar héldu þeim í 3-5 marka fjarlægð lengst af. Arnór Þorri Þorsteinsson minnkaði muninn í eitt mark, 30-29, þegar tæpar fimm mínútur lifðu leiks. Haukar hleyptu þeim ekki nær og skoruðu fimm mörk gegn tveimur á lokamínútunum. 

Brynjar Hólm Grétarsson skoraði átta mörk fyrir Þór og Arnór Þorri Þorsteinsson sjö. Hjá Haukum var Skarphéðinn Ívar Einarsson langatkvæðamestur, skoraði 11 mörk. 

  • Haukar - Þór 35-31 (18-12)

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 8, Arnór Þorri Þorsteinsson 7, Oddur Gretarsson 6, Igor Chiseliov 5, Þórður Tandri Ágústsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Þormar Sigurðsson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 9 af 33 (27,33%), Patrekur Guðni Þorbergsson 1 af 12 (8,3%).
Refsimínútur: 10.

Tölfræði leiksins á hbstatz.is

Leikskýrslan á vef HSÍ