Fara í efni
KA/Þór

Lygilegt að Þór skyldi tapa fyrir Þrótti

Rafael Victor (9) skorar fyrir Þór á 52. mínútu. Ýmir Geirsson, sem er í fjarska, sendi boltann inn á markteiginn og Rafa skallaði hann laglega í stöngina og inn án þess að Þórhallur Ísak Guðmundsson markvörður fengi rönd við reist. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði 2:1 fyrir Reykjavíkur-Þrótti í kvöld í Boganum í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þar með höfðu liðin sætaskipti; Þróttur hefur nú 18 stig eftir 11 leiki og er í fjórða sæti en Þór seig niður í fimmta sæti. Er með 17 stig að loknum 11 leikjum.

Það var með ólíkindum að Þórsarar skyldu ekki fagna sigri gegn Þrótti. Þeir réðu í raun lögum og lofum lengst af í leiknum, fengu nokkur prýðileg færi til að skora en nýttu aðeins eitt. Gestirnir fengu eitt gott færi í fyrri hálfleik og Aron Birkir varði vel skot utan af velli í tvígang en annars ógnuðu þeir ekki marki Þórsara fyrr en í blálokin. Náðu þá loks að halda boltanum í einhverja stund og leikmenn Þórs gáðu ekki að sér. Þróttarar skoruðu á 86. mín. og á annarri mínútu uppbótartíma.

RAFAEL VICTOR KOMINN Á BLAÐ
Framherjinn Rafael Victor kom Þór yfir á 52. mínútu með fyrsta marki sínu í sumar. Orri Sigurjónsson sendi sendi boltann af miðjunni út á vinstri kant á Ými Geirsson sem fór illa með varnarmann, lék upp að endamörkum og sendi inn á markteiginn. Rafa gerði vel; losaði sig frá varnarmanni og skallaði boltann í erfiðri stöðu í stöngina fjær og inn. Gleðin leyndi sér ekki og skyldi engan undra, framherjinn hefur verið meiddur mánuðum saman og er nýbyrjaður að spila.

_ _ _

  • Þróttarar jöfnuðu á 86. mín. sem fyrr segir. Einn þeirra fór illa með varnarmenn þegar hann lagði upp markið; plataði þá upp úr skónum, sendi boltann fyrir frá vinstri og Húsvíkingurinn ungi, Jakob Gunnar Sigurðsson, var ákveðnari en varnarjaxlinn Yann Affi og skoraði af stuttu færi. Þetta var á 86. mínútu.

SIGURMARKIÐ
Sigurmarkið var í senn ótrúlegt og glæsilegt. Það var á annarri mínútu af fimm í uppbótartíma sem Þróttarar sóttu upp vinstra megin, Þórsarar fjölmenntu þangað en gleymdu bakverðinum Eiríki Þorsteini Blöndal. Hann fékk boltann utan vítateigs og þegar reynt var að stöðva hann var það orðið of seint; Eiríkur ákvað að láta vaða á markið, rann til um leið og hann skaut en það kom ekki að sök því boltinn söng í netinu, efst í markhorninu.

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Þórs, trúði vart sínum augum þegar Þróttur gerði sigurmarkið í lokin og var reyndar ekki einn um það.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni