KA/Þór
Balde og Aron Ingi framlengja til 2027
01.07.2025 kl. 21:00

Ibrahima Balde, til vinstri, og Aron Ingi Magnússon eru nú báðir samningsbundnir Þór til hausts 2027. Myndir: Ármann Hinrik
Tveir lykilmanna knattspyrnuliðs Þórs hafa framlengt samning við félagið; Ibrahima Balde og Aron Ingi Magnússon, sem báðir hafa leikið mjög vel í sumar, eru nú samningsbundnir rúmlega tvö ár í viðbót – til hausts 2027.
„Ibra gekk í raðir Þórs í vetur og hefur skorað 9 mörk í 13 leikjum fyrir okkar menn í sumar í deild og bikar,“ segir í tilkynningu á samfélagsmiðlum Þórs í dag. „Alls hefur Ibra, sem er 29 ára gamall, leikið 67 leiki á Íslandi en hann kom til Þórs frá Vestra þar sem hann lék síðustu tvö ár. Sannkölluð gleðitíðindi enda hefur Ibra fallið vel inn í umhverfið í Þorpinu í sumar.
Balde samdi upphaflega aðeins út yfirstandandi leiktíð.
Tilkynnt var um nýjan samning Arons Inga á laugardaginn. Þá sagði á miðlum Þórs:
- Aron hefur leikið alla leiki okkar manna í deildinni í sumar og hélt upp á nýjan samning með því að skora eitt mark og leggja upp tvö í 0-5 sigri á Fjölni í gær.
- Alls hefur hann leikið 95 meistaraflokksleiki fyrir Þór og skorað 15 mörk en hann er 20 ára gamall og hefur leikið 4 landsleiki fyrir U19 ára landslið Íslands.
Fyrsti samningur Kristófer Katós
Kristófer Kató Friðriksson, sem hér er með boltann í úrslitaleik Kjarnafæðisbikarsins við KA í vor, hefur skrifað undir þriggja ára samning við Þór. Þetta var tilkynnt á samfélagsmiðlum Þórs um helgina. „Þessi 15 ára gamli miðjumaður hefur stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki í vetur og vor,“ segir þar. „Kató er fjölhæfur miðjumaður og spilar einnig reglulega í öftustu línu en hann hefur leikið sex yngri landsleiki fyrir Ísland, þrjá með U15 og þrjá með U16.“