Fara í efni
KA/Þór

Blak: KA lagði Völsung í nágrannaslag

Gísli Marteinn Baldvinsson (nr. 13) og félagar hans í KA lögðu Völsung á Húsavík í síðasta leiknum fyrir jólafrí. Mynd: FB-síða KA.

KA bar sigurorð af Völsungi á Húsavík í síðustu umferðinni fyrir jól í efstu deild karla í blaki, Unbroken-deildinni. Lokatölur urðu 3:0 KA í vil og er liðið áfram í hörkubaráttu um deildarmeistaratitilinn.

Þrátt fyrir að hafa unnið allar þrjár hrinurnar þá var leikurinn jafnari en lokastaðan gefur til kynna. Hrinurnar voru allar lengst af býsna jafnar og KA hafði betur í þeim öllum með sama mun, 25:21.

KA-liðið hefur nú unnið 10 viðureignir og tapað tveimur í Unbroken-deildinni og hefur 28 stig í fjórða sæti deildarinnar. Næstu tvö lið fyrir ofan eru með 29 stig og Þróttarar úr Reykjavík eru á toppnum með 30 stig. Þróttur hefur leikið 13 leiki. Það getur því ennþá allt gerst í toppbaráttunni.

Jólafríið verður stutt hjá KA-mönnum, því næsti leikur er strax þann 4. janúar þegar topplið Þróttar kemur í heimsókn í KA-heimilið.