Fara í efni
KA/Þór

Frábær fyrri hálfleikur ekki nóg hjá KA/Þór

Tinna Valgerður Gísladóttir þrumar að marki Vals í kvöld. Hún var markahæst hjá KA/Þór, skoraði úr öllum átta vítunum sem liðið fékk og gerði eitt mark að auki. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór tók í kvöld á móti toppliði Vals í efstu deild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í leik sem tilheyrði 6. umferð mótsins. Valsarar unnu að lokum sjö marka sigur, 30:23, eftir að KA/Þór hafði verið með yfirhöndina fram í miðjan seinni hálfleik.

Í síðasta leik fékk KA/Þór slæman skell gegn Haukum og því var kannski ekki búist við að liðið næði að standa uppi í hárinu á besta liði landsins. Annað kom þó á daginn og stelpurnar sýndu úr hverju þær eru gerðar, því Völsurum tókst ekki að brjóta mótspyrnu þeirra á bak aftur fyrr en langt var liðið á leikinn. Fyrri hálfleikurinn var frábær hjá heimastúlkum og þær spiluðu mjög skynsamlega. Fiskuðu mörg víti, sem Tinna Valgerður Gísladóttir skilaði öllum í mark. Matea Lonac varði vel og Valskonur voru alltaf skrefinu á eftir. Í leikhléi var staðan 13:9 KA/Þór í vil og satt að segja benti fátt til að margfaldir Íslandsmeistarar Vals myndu fá eitthvað úr þessum leik.

Seinni hálfleikur þróaðist hins vegar öðruvísi en sá fyrri og meiri hraði í leiknum nýttist Valsliðinu betur. Valsarar minnkuðu muninn smám saman, jöfnuðu leikinn og náðu síðan loks forystunni þegar hálfleikurinn var tæplega hálfnaður. Þá virtist allur vindur úr heimaliðinu og Valsarar gengu á lagið síðustu 10 mínútur leiksins. Tveggja marka munur varð að sjö marka mun í lokin og það var reyndar óþarflega mikill munur miðað við gang leiksins.

Ekki lengi að gerast ... Valsmenn skoruðu nokkur mjög auðveld mörk í seinni hálfleik eftir misheppnaða sókn KA/Þórs. Hér skorar Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir sem var markahæst í liði gestanna.

Fjórði tapleikurinn í röð

Ef til vill var það skortur á breidd í sókninni sem háði KA/Þór en fyrir utan Susanne Denise Pettersen, sem skoraði sjö mörk í leiknum, tókst engum leikmanni liðsins að skora fleiri en eitt mark utan af velli fyrr en Unnur Ómarsdóttir skoraði annað mark sitt og síðasta mark heimaliðsins á lokamínútunni. Tinna Valgerður nýtti vítin frábærlega og Matea varði vel í fyrri hálfleik en eftir hlé var markvarslan sama og engin. KA/Þór lék mikið með sjö menn í sókninni og tók markvörðinn út af á meðan og Valskonur náðu að nýta sér það betur í seinni hálfleik og skora auðveld mörk. Valur vann seinni hálfleikinn 21:10, sem minnir óþægilega á 24:10 hálfleikinn hjá KA/Þór gegn Haukum í síðustu umferð, en frammistaðan lengst af í þessum leik var þó töluvert betri en í Haukaleiknum.

Deildarkeppnin er komin í frí yfir hátíðarnar og næsti leikur KA/Þórs er þann 10. janúar. Liðið situr nú í 6. sæti deildarinnar, eftir fjóra tapleiki í röð, og hvíldin væntanlega kærkomin til að liðið nái að stilla saman strengi á ný.

Mörk KA/Þórs: Tinna Valgerður Gísladóttir 9 (8 víti), Susanne Denise Pettersen 7, Unnur Ómarsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1, Trude Blestrud Hakonsen 1.

Varin skot: Matea Lonac 9, Bernadett Leiner 1.

Mörk Vals: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 9, Lovísa Thompson 4, Mariam Eradze 4,  Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3 (3 víti), Þórey Anna Ásgeirsdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Guðrún Ásta Magnúsdóttir 1, Sara Lind Fróðadóttir 1, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 8, Elísabet Millý Elíasardóttir 1.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz

Staðan í deildinni