Fara í efni
KA

Villuvandræði í lokin og Þórsarar töpuðu

Axel Arnarsson var stigahæstur Þórsara í gær, skoraði 29 stig. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þórsurum mistókst að ná öðrum sigrinum í röð og klifra upp töfluna í 1. deild karla í körfuknattleik þegar þeir tóku á móti Selfyssingum í gær. Gestirnir unnu með sex stiga mun, 75-81. Þrír Þórsarar enduðu á bekknum með fimm villur á lokamínútum leiksins. 

Fyrri hálfleikurinn var meira og minna jafn, en gestirnir þó frekar með frumkvæðið og forystuna, náðu að skora flautukörfu í lok fyrsta leikhluta. Svo tæpt var það þó að dómarar dæmdu fyrst ekki gilda körfu, en breyttu því síðan eftir að hafa skoðað lokaskotið á skjá. Selfyssingar með sex stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, sem Þórsarar minnkuðu niður í fimm í lok fyrri hálfleiks. 

Selfyssingar héldu frumkvæðinu áfram í seinni hálfleiknum, juku forystuna í fyrsta skipti í meira en tíu stig undir lok þriðja leikhlutans. Snemma í fjórða leikhluta hófu Þórsarar að saxa aftur á forskotið og náðu því niður í þrjú stig, 70-73 þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir. Þá var dæmd villa á Paco Del Aquilla í Þórsliðinu og tæknivilla í framhaldinu fyrir mótmæli og hann þar með út úr leiknum með fimm villur. Ekki löngu seinna fékk Smári Jónsson sína fimmtu villu og varð þriðji Þórsarinn sem fór út af með fimm villur því skömmu áður en Paco fór út af hafði Pétur Cariglia einnig verið sendur á bekkinn með fimm villur.

Þórsarar reyndu hvað þeir gátu að stöðva gestina og freista þess að jafna leikinn, en það gekk ekki eftir og fóru Selfyssingar að lokum heim með sex stiga sigur, 81-75. 

  • Þór - Selfoss (16-22) (21-20) 37-42 (17-21) (21-18) 75-81 

Axel Arnarsson átti góðan leik fyrir Þór, skoraði 29 stig. Christian Caldwell kom næstur með 24 stig og tíu fráköst. Selfyssingar skiptu stigunum mun jafnar með sér og fengu mun fleiri stig frá varamönnum sínum en Þórsarar. Kristijan Vladovic skoraði 19 stig fyrir Selfoss, Fjölnir Morthens 17 og Óðinn Freyr Árnason 15.

Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Axel Arnarsson 29/4/2
  • Christian Caldwell 24/10/2 - 23 framlagsstig
  • Paco Del Aquilla 7/6/4
  • Finnbogi Páll Benónýsson 6/3/0
  • Pétur Cariglia 5/0/0
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 3/2/1
  • Smári Jónsson 1/0/1
  • Páll Nóel Hjálmarsson 0/0/3
  • Týr Óskar Pratiksson 0/0/1

Þórsarar eru áfram í 10. sæti deildarinnar með tvo sigra í fyrstu tíu leikjunum, en þeir mæta Fylki í lokaleik sínum í fyrri hluta deildarkeppninnar. Fylkir og KV eru í sætunum fyrir neðan Þór, bæði með einn sigur.

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni