Fara í efni
KA

Viðar Örn skoraði og KA lagði Val aftur

Viðar Örn Kjartansson marki sínu gegn Val í kvöld. Mynd: Þórir Tryggvason

KA-strákarnir í fótboltanum halda sínu striki og í kvöld unnu þeir Valsmenn 1:0 á heimavelli í Bestu deildinni í hörkuleik. Viðar Örn Kjartansson gerði sigurmarkið í lok fyrri hálfleiks.

Þetta var sjöundi leikur KA í röð án taps í deildinni; síðan liðið tapaði fyrir Breiðabliki 19. júní hefur KA unnið fimm leiki í deildinni og gert tvö jafntefli. Þetta var reyndar áttundi leikur KA-strákanna í röð án taps því á þessu tímabili tryggðu þeir sér sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar – einmitt með sigri á Val á heimavelli, í leik sem KA-menn gleyma ekki svo glatt.

Viðar Örn var mjög lengi í gang eftir að hann gekk til liðs við KA í vor en nú hefur þessi mikli markahrókur skorað í tveimur leikjum í röð og mark kvöldsins bætti þremur afar dýrmætum stigum í sarpinn. KA er komið með 22 stig en ÍA, sem er í sjötta stig, hefur 24 stig. Sex efstu liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn að 22 umferðum loknum. Vert er að geta þess að ÍA á einn leik til góða á KA, gegn Vestra á Ísafirði á morgun.

Fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA, Sr­djan Tufegdzic, stýrði Valsliðinu í fyrsta skipti í kvöld. Hann hefur þjálfað í Svíþjóð undanfarin ár en var ráðinn til Hlíðarendaliðsins eftir að Arnar Grétarsson, annar fyrrverandi þjálfari KA, var látinn taka pokann sinn á dögunum. KA-menn buðu því þennan gamlan félaga velkominn í slaginn á ný í kvöld með því að leggja hann að velli!

Marki kvöldsins fagnað. Frá vinstri: Jakob Snær Árnason, Hans Viktor Guðmundsson og Viðar Örn Kjartansson. Mynd: Þórir Tryggvason

Daníel Hafsteinsson skaut yfir úr góðu færi strax á annarri mínútu leiksins í kvöld en það voru síðan gestirnir sem sköpuðu betri færi í fyrri hálfleiknum, allt fram að markinu. Steinþór Már markvörður KA var hins vegar starfi sínu vaxinn og varði mjög vel í tvígang en Valsmaðurinn Jónatan Ingi Jónsson sá um að klúðra besta færinu; með miklum ólíkindum var að hann skyldi skjóta yfir markið en ekki skora, úr algjöru dauðafæri.

Það var svo á lokasekúndum fyrri hálfleiks sem Viðar Örn gerði það sem reyndist sigurmarkið. Eftir fyrirgjöf Hallgríms Mars Steingrímssonar inn í vítateig Valsmanna barst boltann út fyrir teig á Daníel Hafsteinsson sem hugðist skjóta að marki. Skotið var hins vegar afleitt; Daníel hitti boltann illa, en það kom alls ekki að sök því þetta slæma skot varð að frábærri sendingu! Boltann fór beint til Viðars Arnar sem var ódekkaður á markteignum og hann stýrði boltanum í markhornið. Gamla, góða markanefið er komið aftur á sinn stað!

Viðar Örn var sprækur í leiknum og þegar kortér var liðið af seinni hálfleik – og þar með hálftími eftir – slapp hann inn fyrir vörn Valsara, Frederik Schram markvörður kom askvaðandi út á móti og freistaði þess að stöðva framherjann, en var aðeins of seinn; Frederik braut á framherjanum og fékk réttilega að líta rauða spjaldið. Var rekinn af velli en Valsmenn voru heppnir að því leyti að brotið átti sér stað rétt fyrir utan vítateig. KA fékk því aukaspyrnu en ekki vítaspyrnu en litlu munaði reyndar að Hallgrímur Mar skoraði. Boltinn small í þverslánni. 

Ögmundur Krist­ins­son, sem nýgenginn er til liðs við Vals eftir árafjöld sem atvinnumaður erlendis, leysti Frederik af hólmi.

Eftir að Valsmenn urðu einum færri virkuðu þeir öllu frískari en KA-strákarnir, Valsliðið hélt boltanum vel en náðu þó ekki að ógna marki KA að neinu ráði nema hvað Gylfi Þór Sigurðsson skaut naumlega framhjá, þegar hann lét vaða að marki fyrir utan teig. KA-menn vörðust vel og fögnuðu að vonum vel að leikslokum.

Frederik Schram hverfur af vettvangi eftir að hann fékk að líta rauða spjaldið. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Staðan í deildinni