Fara í efni
KA

Þórsarar taka á móti Breiðabliki í kvöld

Christian Caldwell (10) í æfingaleik gegn Hetti nýlega. Hann skoraði mest Þórsara í fyrsta leik liðsins í deildinni. Mynd: Guðjón Adnri Gylfason.

Þórsarar taka á móti liði Breiðabliks í 2. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik í kvöld kl. 19:15. Þórsarar tefla fram töluvert breyttu liði og langyngsta liði deildarinnar, eins og kom fram í máli Richie Gonzáles í umfjöllun akureyri.net fyrir fyrsta leik. Þer eru því ef til vill óskrifað blað til að byrja með og þurfa stuðningsmenn mögulega á þolinmæði að halda á meðan liðið slípar sig saman. 

Þór á strax annan heimaleik í kvöld þegar Breiðablik kemur í heimsókn í Höllina. Breiðablik vann öruggan sigur á Selfyssingum í fyrstu umferðinni, 87-58.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Breiðablik

Þórsarar hófu leik í 1. deildinni fyrir viku og máttu þá þola 20 stiga tap, 82-102, fyrir Hornfirðingum í Sindra. Slök byrjun Þórsara reyndist þeim dýrkeypt þegar upp var staðið, en gestirnir höfðu náð 16 stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Þórsurum gekk heldur brösuglega í byrjun, misstu boltann og hittu illa til að byrja með, auk þess sem gestirnir áttu heldur auðvelt með að komast að körfunni. Munurinn þó ekki nema átta stig, gestunum í vil, eftir fyrsta leikhlutann. Annar leikhluti var jafnari þar til alveg í lokin, en þá skoruðu gestirnir 11 stig á móti tveimur stigum Þórsara á síðustu þremur mínútunum. Sextán stiga munur eftir fyrri hálfleikinn.

Gestirnir juku forskotið áfram hægt og bítandi í seinni hálfleiknum og náðu mest 23ja stiga forskoti þegar langt var liðið á þriðja leikhlutann. Þórsarar náðu síðan að minnka forskotið örlítið í fjórða leikhlutanum, en sigur gestanna þó aldrei í hættu. Munurinn að lokum 20 stig, 82-102.

  • Þór - Sindri (20-28) (20-28) 40-56 (18-23) (24-23) 82-102

Tveir ungir og uppaldir Þórsarar, þeir Aron Geir Jónsson og Pétur Cariglia spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik gegn Sindra og skoruðu einnig sín fyrstu stig. Aðrir tveir ungir Þórsarar sem komu nokkrum sinnum við sögu í leikjum síðasta tímabils, Dagur Vilhelm Ragnarsson og Pétur Áki Stefánsson, létu einnig til sín taka í leiknum og var Pétur Áki til að mynda með flestar stoðsendingar í liði Þórs, sjö. Þá voru fjórir nýir leikmenn, Luke Moyer, Christian Caldwell, Axel Arnarsson og Týr Óskar Pratiksson að spila í fyrsta skipti í mótsleik með Þórsliðinu. Þórsarar bíða hins vegar eftir því að fá öflugan og hávaxinn miðherja, Paco del Aquilla, til leiks eftir meiðsli. 

Helstu tölur Þórsliðsins:

Stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Luke Moyer 23/3/2 -18 framlagspunktar
  • Christian Caldwell 20/11/0 
  • Axel Arnarsson 16/4/3
  • Páll Nóel Hjálmarsson 6/2/0
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 5/2/0
  • Smári Jónsson 4/1/7
  • Pétur Áki Stefánsson 3/1/7
  • Pétur Cariglia 3/2/0
  • Aron Geir Jónsson 2/3/1
  • Dagur Vilhelm Ragnarsson 0/1/0
  • Andri Már Jóhannesson 0/1/0
  • Týr Óskar Pratiksson 0/3/0

Jason Gigliotti, fyrrum leikmaður Þórs, var stigahæstur í liði Sindra með 23 stig og átta fráköst. Annar fyrrum leikmaður Þórs, Srdan Stojanovic, var einnig atkvæðamikill í liði gestanna. 

Tölfræði leiksins