Fara í efni
KA

SA vann SR í framlengdum leik

Kolbrún Björnsdóttir, til hægri, tryggði SA sigurinn í gærkvöld með marki eftir rúmlega þriggja mínútna leik í framlengingu. Myndin er úr leik liðsins gegn Fjölni fyrr í haust. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Skautafélag Akureyrar vann Skautafélag Reykjavíkur í Toppdeild kvenna í íshokkí í gærkvöld, 2-1, í framlengdum leik. Magdalena Sulova og Kolbrún Björnsdóttir skoruðu mörk SA, en Ragnhildur Kjartansdóttir eina mark SR.

Öfugt við síðustu viðureign liðanna þegar þau mættust á Akureyri fyrir stuttu var það SA-liðið sem mætti heldur fámennt til leiks á meðan gestgjafarnir í Laugardalnum voru nær því að vera með fullskipað lið. Fyrsta lotan var tíðindalítill, markalaus og án refsinga. Önnur lotan var einnig án marka og tókst hvorugu liðinu að nýta sér liðsmuninn þegar hitt liðið fékk refsingu, SR einni fleiri í fjórar mínútur og SA í tvær.

Þriðja lotan var nær hálfnuð þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Það var Magdalena Sulova sem skoraði markið með stoðsendingu frá Eyrúnu Garðarsdóttur þegar tæpar 12 mínútur voru eftir af leiknum.

Markið Magdalenu virtist ætla að duga SA til sigurs, en tveir Akureyringar í SR-liðinu voru ekki alveg á því að hleypa SA-konum heim með hreint mark. Þegar innan við mínúta var eftir af þriðju lotunni jafnaði Ragnhildur Kjartansdóttir leikinn eftir stoðsendingu frá Berglindi Rós Leifsdóttur. Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki, staðan 1-1 að lokinni þriðju lotunni og því gripið til framlengingar.

Í framlengingunni var það Kolbrún Björnsdóttir sem tryggði sigurinn og aukastigið með marki eftir rúmlega þriggja mínútna leik, eftir stoðsendingar frá Magdalenu Sulovu og Eyrúnu Garðarsdóttur.

Þrátt fyrir fámennan hóp tókst SA þannig að vinna leikinn í framlengingu.

  • SR - SA 1-2 (0-0, 0-0, 1-1, 0-1)

SR

Mörk/stoðsendingar: Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0, Berglind Rós Leifsdóttir 0/1.
Varin skot: Julianna Thomson 16 af 18 (88,9%).
Refsimínútur: 6.

SA

Mörk/stoðsendingar: Magdalena Sulova 1/1, Kolbrún Björnsdóttir 1/0, Eyrún Garðarsdóttir 0/2.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 12 af 13 (92,3%).
Refsimínútur: 4.

SA er á toppi deildarinnar með 19 stig eftir sjö leiki, en SR í 2. sæti með 11 stig úr jafn mörgum leikjum. Þetta er í annað sinn á rúmum mánuði sem SA vinnur SR 2-1 í framlengdum leik í Laugardalnum. 

Leikskýrslan (atvikalýsing).

Staðan í deildinni.