Fara í efni
KA

Tveir í leikbann eftir átökin í Egilshöll

Úr leik SA og SR í úrslitarimmunni síðastliðið vor. Karlalið SA og SR mætast í Skautahöllinni á Akureyri á morgun kl. 16:45. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Tveir leikmenn af þeim sex sem fengu útilokunardóm í leik Fjölnis og SA í Egilshöllinni síðastliðinn þriðjudag hafa verið úrskurðaðir í eins leiks bann, en mat aganefndar varðandi hina fjóra er að brottvísunin hafi verið nægileg refsing. Unnar Rúnarsson, leikmaður SA, og Bergþór Ágústsson, leikmaður Fjölnis, fá eins leiks bann.

Súperman-flug ekki í samræmi við reglur

Aganefndin hefur farið yfir upptöku af leiknum og metið átökin út frá þeim og atvikaskýrslu dómara. Umræddum átökum var lýst í frétt akureyri.net af leiknum og má sjá á upptöku frá leiknum.

Leikmaður SA var á leið í skyndisókn, en er stöðvaður af Bergþóri. Upp úr því ræðst Unnar að Bergþóri og í framhaldinu hefjast átök víða í varnarsvæði Fjölnis. Niðurstaða nefndarinnar er annars vegar að dæma Unnar í eins leiks bann þar sem hann er talinn upphafsmaður að átökunum eftir að brotið var á liðsfélaga hans og hafi að auki slegið með báðum höndum aftan í hnakka andstæðings í þvögunni sem myndaðist. Bergþór er einnig dæmdur í eins leiks bann því þó tæklingin sjálf sé að mati nefndarinnar ekki á einhvern hátt ólögleg, þá sé Súpermann-flug hans, eins og það er kallað, og hnefahögg í kjölfarið ekki í samræmi við reglur leiksins. 

Aðrir leikmenn sem fengu brottvísun, Aron Ingason og Robbe Delport, leikmenn SA, og Falur Guðnason og Hilmar Sverrisson úr Fjölni, eru því ekki dæmdir í leikbann heldur er brottvísunin talin nægileg refsing. Unnar missir því af leik SA og SR á Akureyri á morgun. 

Óhapp, en leikmaður ber ábyrgð á kylfunni

SA hefur leikið án Bandaríkjamannsins Hanks Nagel í undanförnum tveimur leikjum þar sem hann hefur tekið út leikbann. Í leik SA og SR 25. október átti hann í baráttu um pökkinn við leikmann SR, en á sama tíma skautar annar leikmaður SR framhjá þeim og fær kylfu Hanks í andlitið þannig að tennur brotna. Aganefndin úrskurðaði Hank í tveggja leikja bann og benti í úrskurði sínum á að allir leikmenn séu ábyrgir fyrir kylfu sinni og að hún fari ekki yfir axlarhæð andstæðings, á þeirri ábyrgð séu engar undantekningar. Samdóma álit aganefndar var að ekki væri um ásetningsbrot að ræða heldur óhapp, en það losi leikmanninn ekki undan ábyrgð. 

Í sama leik fékk markvörður SR, Jóhann Björgvin Ragnarsson, brottvísun. Í úrskurði aganefndar er atvikinu lýst þannig að leikmaður SA hafi fallið flatur í markteig SR, liggi þar og sé fyrir markmanninum. Dómari flautaði og stöðvaði leikinn „vegna mótherja í markteig“, en um leið og flautið gellur stekkur markvörður SR til og byrjar að kýla SA-manninn sem liggur í markteignum með „blocker“, markmannsbúnaði á hægri handlegg. Niðurstaðan er eins leiks bann. „Líkt og reglur leiksins gefa til kynna hafa markmenn liða ekkert svigrúm til þess að aðhafast eitthvað í þessa veru inn í markteig sínum. Komin slíkt upp er það jafnan litið alvarlegum augum.“

Heimilt að dæma út frá brotasögu

Í báðum tilvikum, við ákvörðun refsingar fyrir Hank Nagel og Jóhann Björgvin, vísaði aganefndin til þess að á síðasta íshokkíþingi hafi verið gerð sú breyting á reglugerð um nefndina að nú er henni heimilt að hafa brotasögu leikmanna til hliðsjónar við úthlutun refsinga. Hank Nagel er nýr leikmaður SA og hefur aðeins spilað fáeina leiki hér og því ekki með brotasögu sem aganefndin hefði getað notað til að þyngja refsinguna, en bannið engu að síður tveir leikir. Í úrskurði nefndarinnar um Jóhann Björgvin segir að við uppflettingu síðustu fimm ára sé ekki að finna einn úrskurð aganefndar gegn honum og í því ljósi úrskurði nefndin hann í eins leiks bann.

Jóhann Björgvin tók út leikbannið gegn Fjölni, 6-3 sigurleik 31. október. Hank Nagel tók út sitt leikbann í leikjunum tveimur gegn Fjölni, 4-3 sigri á Akureyri síðastliðinn laugardag og 4-3 tapi í Egilshöllinni á þriðjudag.