Sandra semur við 1. FC Köln í Þýskalandi

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði Þórs/KA, skrifaði í morgun undir samning við þýska félagið 1. FC Köln. Hún verður því ekki meira með Þór/KA í sumar eins og áður hefur komið fram.
Þýska deildin – Bundesligan – hefst eftir viku og 1. FC Köln fær RB Leipzig í heimsókn í 1. umferðinni, laugardaginn 6. september. Síðasti æfingaleikur Kölnarliðsins áður en deildin hefst verður í dag á heimavelli gegn hollenska liðinu FC Utrecht en Sandra segist ekki munu koma við sögu í þeirri viðureign enda hafi hún enn ekki æft með liðinu.
Þýskaland hentar vel
Sandra, sem er þrítug, segir í viðtali við Akureyri.net sem birtist á eftir að hún sé mjög spennt og afar þakklát fyrir þetta tækifæri. Fulltrúar þýska liðsins hafi fylgst grannt með Evrópukeppni landsliða í sumar, þar sem hún var í byrjunarliði Íslands í öllum þremur leikjunum.
Fleiri lið sýndu Söndru Maríu áhuga en hún segir það henta fjölskyldunni mjög vel að hún semji við lið í Þýskalandi þar sem þýska sé töluð á heimilinu. Maður Söndru, Tom Luca Küster, er Þjóðverji og dóttir þeirra, Ella Ylví Küster sem verður fjögurra ára í september, kom í heiminn þegar hún var á mála hjá Bayer Leverkusen þar í landi. Þess má og geta að faðir Söndru Maríu, Rainer Lorenz Jessen, er Þjóðverji.
Spennandi þjálfari
Kvennalið 1. FC Köln hefur ekki átt velgengni að fagna síðustu ár og hefur endaði neðarlega í deildinni en segja má að nýr tími hafi gengið í garð hjá félaginu um síðustu áramót þegar Britta Carlson var ráðin aðalþjálfari. Sandra María segir að henni lítist mjög vel á þjálfarann sem hafi ekki verið lengi að selja henni það að ganga til liðs við félagið. Áform hennar um framhaldið séu mjög spennandi.
Carlson, sem er 47 ára, lék á sínum tíma sem varnarmaður og miðjumaður, m.a. með stórliðum Turbine Potsdam og VfL Wolfsburg. Hún tók þátt í 31 A-landsleik á árunum 2004 til 2007.
Hún lagði keppnisskóna á hilluna aðeins þrítug að aldri, vegna langvarandi, þrálátra meiðsla. Carlson var þá á mála hjá Wolfsburg og var umsvifalaust tekin inn í þjálfarateymi félagsins. Britta Carlson var í þjálfaraliði Wolfsburg þegar félagið varð þýskur meistari og Evrópumeistari 2006. Hún varð aðstoðarþjálfari Wolfsburg frá 2008 til 2018 þegar félagið varð fjórum sinunum þýskur meistari, fimm sinnum þýskur bikarmeistari og tvisvar Evrópumeistari vann Meistaradeild Evrópu.
Carlsson var ráðin aðstoðarþjálfari þýska landsliðsins í júní árið 2018 og gegndi því starfi allt þar haustið 2024. Hún tók svo sem aðalþjálfari 1. FC Köln 2. janúar á þessu ári.
Britta Carlson þjálfari kvennaliðs 1. FC Köln. Mynd af heimasíðu félagsins.
Frétt akureyri.net á þriðjudaginn: