Fara í efni
KA

Langþráður og mjög mikilvægur sigur KA

Tveir bestu menn vallarins; Bruno Bernat markvörður KA lítur á klukkuna eftir að hafa varið skot seint í leiknum, og Ólafur Gústafsson sem skynjar einnig að sigurinn er nánast í höfn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann gríðarlega mikilvægan sigur á Gróttu, 32:28, á heimavelli í kvöld í efstu deild Íslandsmóts karla í handbolta, Olís deildinni. Með sigrinum skutust KA-menn upp fyrir Gróttu og eru nú í sjöunda sæti, stigi á undan Stjörnunni og Gróttu. Stjarnan á leik til góða gegn toppliði FH á morgun.

KA-mönnum hefur gengið afleitlega á heimavelli síðustu mánuði; þeir höfðu tapað síðustu sex leikjum í KA-heimilinu og raunar aðeins nælt í þrjú stig í átta heimaleikjum í vetur. Nú var nánast að duga eða drepast því Grótta er líka í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni átta efstu liða um Íslandsmeistaratitilinn. KA á þrjá leiki eftir í deildinni og sigur á Víkingum á heimavelli í næstu umferð ætti að tryggja sæti í hópi átta efstu.

Gestirnir af Seltjarnarnesi voru betri í fyrri hálfleiknum í kvöld. KA hafði reyndar frumkvæðið framan af en Grótta komst mest fjórum mörkum yfir, 16:12, og í hálfleik var staðan 18:15 fyrir gestina.

KA náði að jafna snemma í seinni hálfleik, Bruno Bernat hrökk í gang í markinu og varði hvað eftir annað, vörnin varð betri og heimamenn komust fljótlega yfir. Munurinn varð mestur fimm mörk, 26:21 og 30:25, en þegar tveir KA-menn voru reknir af velli seint í leiknum minnkuðu gestirni muninn í þrjú mörk en komust ekki nær.

Bestu menn KA voru Bruno Bernat, sem varði afar vel í seinni hálfleik, og Ólafur Gústafsson sem er liðinu afar mikilvægur, bæði í sókn og vörn. Þá kom Daði Jónsson skemmtilega á óvart með mikilvægum mörkum úr vinstra horninu.

Mörk KA: Ólafur Gústafsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Daði Jónsson 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Einar Rafn Eiðsson 4 (1 víti), Ott Varik 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Arnór Ísak Haddsson 1 og Magnús Dagur Jónatansson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 15.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

KA-menn eiga nú þrjá leiki eftir í deilarkeppninni.
 
  • KA - Víkingur
  • Afturelding - KA
  • KA - Valur