Fara í efni
KA

Jólagjöf í júlí – Þór/KA varð af 2 stigum

Karen María Sigurgeirsdóttir gerði tvö mörk á Sauðárkróki í kvöld. Mynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Óskiljanlegur vítaspyrnudómur skömmu fyrir leikslok varð til þess að Tindastóll jafnaði 3:3 gegn Þór/KA á Sauðárkróki í kvöld í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Þór/KA er enn í þriðja sæti, hefur nú 28 stig en Tindastóll hefur 12 og er nú þremur stigum frá fallsæti.

Þegar lítið var eftir af leiknum hafði Þór/KA tveggja marka forystu, 3:1, og allt leit út fyrir að Stelpurnar okkar snéru heim úr Skagafirðinum sælar og glaðar með þrjú stig í pokahorninu. Raunin varð þó aldeilis önnur.

Tindastóll minnkaði muninn í eitt mark þegar Jordyn Rhodes skoraði með þrumuskalla eftir hornspyrnu á 86. mínútu af hinum hefðbundnu 90. Þá brást varnarleikur Þórs/KA en hafa ber í huga að Rhodes er mjög öflug og erfið við að eiga. Ekki er hins vegar hægt að kenna leikmönnum Þórs/KA um jöfnunarmarkið, þegar þrjár mínútur voru búnar af fjögurra mínútna uppbótartíma. Það var gjöf dómarans til heimaliðsins.

Hvað sá dómarinn?

Eftir darraðardans í vítateignum þrumaði leikmaður Tindastóls boltanum í Bríeti Jóhannsdóttur af örstuttu færi. Boltinn fór vissulega í hönd Bríetar, gott ef ekki báðar, en hún hélt þeim þétt upp að líkamanum framanverðum. Dómarinn var nærstæddur og virtist í ákjósanlegri stöðu til að sjá atvikið vel en hlýtur að hafa séð ofsjónir; sú ákvörðun að dæma víti var í það minnsta með hreinum ólíkindum. En dómarinn ræður, aldrei dugar að deila við hann og heimamenn þáðu vitaskuld gjöfina. Jordyn Rhodes steig fram og skoraði; hamraði boltann í þverslá og inn og tryggði Sauðkrækingum dýrmætt stig.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, er einn rólegasti og yfirvegaðasti maður lýðveldisins en gat ekki orða bundist eftir vítaspyrnudóminn og skyldi engan undra. Hann var áminntur fyrir orðbragð – hlaut gult spjald að launum – og rauða spjaldið fór svo á loft eftir samtal Jóhanns hans við dómarann að leikslokum. Það var reyndar fljótlega dregið til baka þar sem dómaranum, Guðmundi Páli Friðbertssyni, mun hafa misheyrst á þeim fundi.

Hin mörkin

  • 1:0 – Tindastóll náði forystu á 23. mínútu þegar Elise Anne Morris skallaði boltann í mark eftir mjög skemmtilega útfærða hornspyrnu.
  • 1:1 – Karen María Sigurgeirsdóttir jafnaði á 36. mín. Markvörður Tindastóls sló boltann út í teig eftir fasta fyrirgöf Söndru Maríu Jessen frá vinstri, Karen María sýndi mikil klókindi þegar hún skaust á milli tveggja varnarmanna og skoraði með föstu skoti.
  • 1:2 – Agnes Birta Stefánsdóttir átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Tindastóls, Sandra María tók boltann niður, lék inn í teiginn vinstra megin og skoraði með föstu vinstri fótar skoti í hægra hornið. Þetta var á 43. mínútu.
  • 1:3 – Karen María gerði annað mark sitt í leiknum. Margrét Árnadóttir sendi inn í vítateig, Hulda Ósk Jónsdóttir náði boltanum á undan varnarmanni við endalínuna, renndi út í teig á Bryndísi Eiríksdóttur sem sendi laglega fyrir markið þar sem Karen María var í dauðfæri og skoraði.

Leikskýrslan