Fara í efni
KA

Hulda Björg og Sigfús Fannar best hjá Þór

Hulda Björg Hannesdóttir og Sigfús Fannar Gunnarsson – íþróttakona og íþróttakarl Þórs 2025 – hlaðin verðlaunum í Hamri. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sigfús Fannar Gunnarsson og Hulda Björg Hannesdóttir voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Þórs árið 2025. Kjörinu var lýst á árlegri verðlaunahátíð, Við áramót, sem fram fór í félagsheimilinu Hamri í dag. Sigfús var markahæsti leikmaður næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í sumar þegar Þórsarar tryggðu sér sæti í Bestu deildinni á ný og Hulda Björg hefur verið lykilmaður í knattspyrnuliði Þórs/KA undanfarin ár.

Á hátíðinni í dag voru Íslandsmeistarar og landsliðsfólk úr röðum Þórsara heiðrað, látinna félaga var minnst og boðið upp á tónlistaratriði. Íþróttafólk hverrar deildar var kynnt og heiðrað, og kjöri íþróttafólks ársins hjá Þór síðan lýst.

Kjör íþróttafólks Þórs fer þannig fram að hverri deild er heimilt að tilnefna karl og konu úr sínum röðum og aðalstjórn Þórs kýs íþróttafólk ársins úr þeim hópi.

Vinstri mynd: Hnefaleikakona og -karl Þórs 2025, Valgerður Telma Einarsdóttir og Elmar Freyr Aðalheiðarson. Hægri mynd: Árveig Lilja Bjarnadóttir, rafíþróttakona Þórs 2025.

Íþróttakonur deildanna voru þessar:

  • Árveig Lilja Bjarnadóttir – rafíþróttadeild
  • Bergrós Ásta Guðmundsdóttir – handknattleiksdeild (leikmaður KA/Þórs)
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir – körfuknattleiksdeild
  • Hulda Björg Hannesdóttir – knattspyrnudeild (leikmaður Þórs/KA)
  • Sunna Valdimarsdóttir – píludeild
  • Valgerður Telma Einarsdóttir – hnefaleikadeild


Vinstri mynd: Guðmundur Friðriksson sem tók við viðurkenningu dóttur sinnar, Bergrósar Ástu, handboltakonu Þórs 2025, og Brynjar Hólm Grétarsson handboltakarl Þórs 2025. Hægri mynd: Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar, sem tók við viðurkenningu Matthíasar Arnar Friðrikssonar, pílukarls Þórs 2025, og Sunna Valdimarsdóttir, pílukona Þórs 2025.

Íþróttakarlar deildanna voru þessir:

  • Brynjar Hólm Grétarsson – handknattleiksdeild
  • Elmar Freyr Aðalheiðarson – hnefaleikadeild
  • Matthías Örn Friðriksson – píludeild
  • Pétur Nikulás Cariglia – körfuknattleiksdeild
  • Sigfús Fannar Gunnarsson – knattspyrnudeild
  • Stefán Máni Unnarsson – rafíþróttadeild

Vinstri mynd: körfuboltakarl  og -kona Þórs 2025, Pétur Nikulás Cariglia og Emma Karólína Snæbjarnardóttir. Hægri mynd: knattspyrnukarl og -kona Þórs 2025, Sigfús Fannar Gunnarsson og Hulda Björg Hannesdóttir.

Miklar framfarar Sigfúsar

„Sigfús var valinn besti leikmaður meistaraflokks Þórs keppnistímabilið 2025. Sigfús var lykilmaður í liði Þórs sem vann B-deildina í ár og var jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar með 15 mörk í 21 leik,“ sagði í umsögn um íþróttakarl ársins sem Nói Björnsson, formaður Þórs, las upp í dag. „Alls skoraði Sigfús 19 mörk í 28 leikjum á árinu þegar bikarkeppni og deildarbikar er talið með. Sigfús Fannar var valinn besti leikmaður deildarinnar af fótbolta.net. Sigfús er 23 ára gamall og hefur leikið alls 65 leiki í deild og bikar fyrir Þór og skorað 23 mörk. Framfarirnar hjá Sigfúsi í ár voru eins og sjá má á tölfræðinni gríðarlegar. Sigfús Fannar er uppalinn hjá Þór og fór upp í gegnum alla yngri flokka félagsins. Á þeirri leið hefur hann þurft að leggja mikið á sig og unnið fyrir því að fá tækifæri með meistaraflokki félagsins. Hann er yngri iðkendum góð fyrirmynd þegar kemur að því að leggja sig fram á æfingum og gefast ekki upp þegar á móti blæs, sem gerist alltaf á einhverjum tímapunkti í öllum íþróttum.“

Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ, lengst til vinstri, og Nói Björnsson, formaður Þórs, ásamt íþróttafólki Þórs í dag. Ragnar gaf glæsilegan verðlaunagrip þegar kjör íþróttamanns Þórs var endurvakið árið 1990 og bætti síðan öðrum við þegar kjörið varð kynjaskipt árið 2014. Ragnar mætir jafnan á hátíðina Við áramót og afhendir verðlaunagripina.

Kraftur, dugnaður, hvatning

„Hulda Björg hefur verið lykilmaður í meistaraflokki Þórs/KA undanfarin ár. Í ár spilaði hún alla leiki liðsins í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum, alls 30 leiki,“ sagði Nói Björnsson um íþróttakonu Þórs, Huldu Björg Hannesdóttur. „Hún tók við fyrirliðastöðunni síðsumars og leiddi liðið á erfiðum og spennuþrungnum lokaspretti Íslandsmótsins þar sem hún hjálpaði liðinu að tryggja áframhaldandi veru í deild þeirra bestu. Hulda Björg er ósérhlífin og setur liðið alltaf í fyrsta sæti. Hún leiðir liðið með krafti og dugnaði og er öðrum hvatning innan sem utan vallar. Hulda Björg á að baki 238 leiki með meistaraflokki Þórs/KA í KSÍ-mótum og Meistaradeild Evrópu, þar af eru 169 í efstu deild og fimm Evrópuleikir. “

Ragnar smellti kossi á kinn íþróttakonu Þórs eftir að hann afhenti Huldu Björg Hannesdóttur verðlaunagripina. Raggi lék handbolta með Þór á árum áður með móðurafa Huldu Bjargar, Sigtryggi Guðlaugssyni.