Afdrifarík mistök og KA steinlá fyrir FH

KA-menn steinlágu fyrir FH-ingum í Hafnarfirði í gær í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Lokatölur urðu 5:0 sem er stærsta tap KA fyrir FH frá upphafi. Fyrir leikinn voru liðin jöfn í næst neðsta deildarinnar ásamt ÍBV með 15 stig, þremur meira en ÍA.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn, KA-menn líklega heldur meira með boltann en sköpuðu þó ekki hættu við mark FH nema einu sinni undir lok hálfleiksins þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson þrumaði yfir markið eftir glæsilega sendingu Marcel Römer. Hallgrímur tók boltann í fyrstu snertingu úr erfiðri stöðu. Eftir tæpan hálftíma kom Rodri boltanum reyndar í mark FH en það „mark“ var ekki talið því dómarinn taldi brotið á markverði FH augnabliki áður, sem var hárrétt mat.
FH-ingar gerðu hins vegar tvö mörk í fyrri hálfleik og bæði af ódýrari gerðinni, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það fyrra gerði Björn Daníel Sverrisson með skoti frá miðjum vallarhelmingi KA eftir hroðaleg mistök Williams Tönning markvarðar KA. Tönning fékk sendingu til baka, var með boltann til hliðar við vítateiginn og hugðist spyrna hátt og langt fram en boltinn fór beint til Björns Daníels sem þakkaði kærlega fyrir sig með því að senda hann rakleiðis í tómt markið. Þetta var á 17. mínútu leiksins.
Lítið var eftir af fyrri hálfleik þegar FH komst í 2:0. Böðvar Böðvarsson tók hornspyrnu frá hægri, sendi boltann að nærstönginni þar sem Björn Daníel náði að skalla hann í netið. Tilburðir Tönnings markvarðar voru einnig undarlegir í því tilfelli.
Staðan hefði getað verið verri þegar gengið var til búningsherbergja því KA-menn voru ljónheppnir að FH fékk ekki vítaspyrnu á lokasekúndu hálfleiksins. Birgir Baldvinsson braut augljóslega á Sigurði Bjarti Hallssyni í dauðafæri en dómarinn sá það ekki.
KA-menn freistuðu þess að efla sóknarleikinn í seinni hálfleik, það bar ekki árangur heldur færðu FH-ingar sér það í nyt. Þeir voru öflugir í vörninni sem fyrr og stórhættulegir þegar þeir náðu að sækja hratt.
Fljótlega í seinni hálfleik var FH-ingurinn Kjartan Kári Halldórsson nálægt því að skora; þrumaði boltanum í þverslá og niður en honum tókst ætlunarverkið á 65. mín. Gerði þá þriðja mark FH og aðeins þremur mínútum síðar gerði Sigurður Bjartur Hallsson fjórða markið. Þegar rúmar 20 mínútur skoraði Kristján Flóki Finnbogason fimmta mark Hafnfirðinga og gulltryggði sigurinn, sem var þó vitaskuld löngu í höfn.
Varnarmaðurinn Hans Viktor Guðmundsson var ekki með KA í gær vegna meiðsla og hans var sárt saknað. Varnarleikur liðsins var slakur, tvö fyrstu mörkin komu reyndar eftir mistök sem ekki er hægt að kenna liðsheildinni um en þegar KA freistaði þess að sækja í seinni hálfleiknum til þess að ná í stig lentu varnarmenn liðsins í miklum vandræðum. FH-ingar fóru illa með KA-menn í aðdraganda allra þriggja markanna.