Fara í efni
Jón Óðinn Waage

„Hver á að aðlagast hverjum?“

Fyrir 37 árum byrjaði ég að starfa sem júdóþjálfari. Strax í upphafi fékk ég til mín marga stráka sem þrifust ekki sem best í öðrum íþróttum eða í skólanum. Margir þeirra voru sagðir óþægir, frekir, ofbeldisfullir, óalandi og óferjandi ólátabelgir sem þurfti að aga. Sumir voru sagðir feimnir, huglausir, gungur sem þurfti að herða upp í og svo voru það þeir sem voru sagðir skrítnir. Kannski hef ég agað nokkra, hert upp í sumum og hjálpað einhverjum, en aðallega gerðu þeir mér lífið þess virði að lifa því.

Þannig leið tíminn og aldrei var skortur á strákum sem æfðu hjá mér. Það sem breyttist voru lýsingarnar á þeim, í stað óþægðar var það athyglisbrestur og ofvirkni. Í stað feimni kom innhverfa og þeir skrítnu voru nú einhverfir. Mér fannst þetta mikið framfaraskref, bara það að hætta að nota þau neikvæðu orð sem notuð höfðu verið hjálpaði þessum einstaklingum mikið. En þessi nýju orð mega aldrei fá neikvæða merkingu. Þeim er aðeins ætlað að lýsa að við erum ólík og hjálpa okkar að takast á við það.

Ég fylgdist einu sinni með greiningarferli hjá ungum pilti. Hann hafði ekki alveg passað inn í það kerfi sem við notumst við og því þurfti að hjálpa honum að aðlagast. Sálfræðingur lagði fyrir hann hvert prófið á fætur öðru. Að því loknu spjallaði sálfræðingurinn við piltinn. Sálfræðingurinn hafði fengið þær upplýsingar frá skólanum að pilturinn vissi ekki hvað biðröð væri því að hann hleypti alltaf fólki fram fyrir sig þegar hann stæði í biðröð í matsalnum. Pilturinn svaraði: „Ég veit alveg hvað biðröð er, mér liggur bara ekkert á.“

Viðtalinu lauk. Niðurstaða sálfræðingsins var að pilturinn hefði óvenju miklu samhyggð, svo mikla að venjulegt fólk gæti átt erfitt með að skilja það.

Svo leit hann hugsi upp frá pappírunum og sagði eins og við sjálfan sig: „Hver á að aðlagast hverjum?“

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Vinir og óvinir

Jón Óðinn Waage skrifar
07. febrúar 2024 | kl. 06:00

Af hverju hata þau okkur svona mikið?

Jón Óðinn Waage skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 15:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Gallað en samt magnað meistaraverk

Jón Óðinn Waage skrifar
18. ágúst 2023 | kl. 13:15

Völundarhús hugar míns

Jón Óðinn Waage skrifar
16. ágúst 2023 | kl. 19:00