Fara í efni
Jón Óðinn Waage

Auðvitað viljum við hjálpa, en að mörgu er að hyggja ...

Það var þröngt í bátnum, hann var ekki ætlaður fyrir svo marga. Báturinn lá lágt í sjónum, sjórinn átti greiða leið yfir borðstokkinn. Allir voru blautir. Og kaldir. Það voru mörg börn í bátnum. Þau þoldu vosbúðina ekki vel, sum voru vart með meðvitund.

Þau höfðu verið fleiri þegar þau lögðu af stað. Nokkrir höfðu fallið fyrir borð þegar gaf á bátinn. Ættingjar þeirra voru yfirkomnir af harmi, sumir höfðu varpað sér í sjóinn á eftir ættingjum sínum. Þau áttu aldrei möguleika. Fólkið í bátnum átti fullt í fangi með að sjá um sjálft sig.

Þau vissu að þessi sjóferð var upp á von og óvon. En þó von. Þaðan sem þau komu var engin von lengur.

Báturinn var að sökkva, þau voru öll svo þrekuð að ekkert þeirra átti möguleika að bjarga sér á sundi. Þá sáu þau til lands. Gleði greip um sig í bátnum. Þau sáu fólk í fjörunni, þau veifuðu til þeirra og kölluðu:

„Við erum að deyja, viljið þið hjálpa okkur?“

Fólkið í fjörunni veifaði ekki á móti.

Það leit hvert á annað með spurnarsvip. Fyrstur tók til máls prófessor. Hann sagðist vissulega vilja bjarga fólkinu en þó þyrfti að hugsa málið betur. Það þyrfti að huga að aðstæðum heima fyrir. Hann sagðist gjarnan vilja vita um menntunarstig þeirra sem væru í bátnum. Ef að fólkið væri vel menntað þá væri hann til í að bjarga því.

Næstur tók til máls þingmaður. Hann sagðist sammála prófessornum um að það þyrfti að hugsa málið betur. Hann vildi vita hverrar trúar fólkið væri, ef það væri sömu trúar og hann þá væri hann tilbúinn að skoða það að bjarga fólkinu.

Nú tóku margir til máls. Margir voru þeirrar skoðunar að þar sem að þeir hefði sjálfir ekki úr miklu að moða þá væri ekki hægt að bæta við fólki sem að myndi taka peninga frá þeim. Þau hefðu jú borgað sína skatta og vildu fá að njóta þeirra.

Þá steig forsætisráðherra fram. Hann sagði að það væri greinilega margt sem þyrfti að skoða og taka tillit til. Hann lagði til að skipuð yrði nefnd um málið. Þetta fannst fólkinu góð hugmynd og var hún samþykkt. Hélt nú hver til síns heima og beið þess að nefndin hæfi störf.

Á meðan dó fólkið í bátnum.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Vinir og óvinir

Jón Óðinn Waage skrifar
07. febrúar 2024 | kl. 06:00

Af hverju hata þau okkur svona mikið?

Jón Óðinn Waage skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 15:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Gallað en samt magnað meistaraverk

Jón Óðinn Waage skrifar
18. ágúst 2023 | kl. 13:15

Völundarhús hugar míns

Jón Óðinn Waage skrifar
16. ágúst 2023 | kl. 19:00