Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

Þýski sendiherrann hreifst af kortasafninu

Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, og dr. Karl-Werner Schulte hittust í fyrsta skipti á Akureyri í liðinni viku. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, sótti Akureyri heim í síðustu viku og skoðaði þá meðal annars Íslandskortasafn landa sinna, Schulte hjónanna, sem þau gáfu Akureyrarbæ og varðveitt er á Minjasafninu.

Akureyri.net greindi fyrr í dag frá því að Karl-Werner Schulte kom enn einu sinni færandi hendi til Akureyrar á dögunum og gaf sveitarfélaginu 31 kort. Í Schulte safninu eru nú 174 Íslandskort, sum afar fágæt og einstakt kort bættist við í þetta skipti að sögn gefandans.

„Mér finnst þetta dásamlegt,“ segir Clarissa sendiherra við Akureyri.net um Íslandskortasafnið. „Ég var að hitta herra Schulte í fyrsta skipti. Hann er mjög ástríðufullur varðandi þetta verkefni. Sem safnari ferðu dýpra og dýpra ofan í viðfangsefnið. Hann veit allt um kort af Íslandi. Það eru til safnarar sem sitja á söfnum sínum og geyma það niðri í kjallara. En hann naut þessa safns og þess vegna er honum svo mikilvægt, eftir að hafa gefið bænum safnið sem er honum svo hjartfólgið, að það sé sýnilegt. Auðvitað er aðeins hægt að sýna hluta af því í einu því þetta er svo stórt safn. Ef fólk nýtur þessa safns eins og ég naut þess að sjá það held ég að hann hafi náð fram því sem hann ætlaði sér. Hann vildi deila þessari ástríðu sinni á sinn hátt og þess vegna er það svo heillandi,” segir Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi.

Frétt Akureyri.net fyrr í dag:

Einstakt kort bætist í Schulte safnið