Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

„Heimsóttu“ Giselu á sjötugsafmælinu

Feðgarnir Karl-Werner og Sven við leiði Giselu í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Karl með rós sem nefnd er eftir Giselu heitinni, eiginkonu hans og móður Sven. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þjóðverjinn Karl-Werner Schulte dvaldi á Akureyri nokkra daga fyrir skemmstu ásamt tveimur sonum sínum og vini fjölskyldunnar. Ástæða ferðarinnar var sú að eiginkona Karls, dr. Gisela Schulte-Daxbök, hefði orðið sjötug 24. þessa mánaðar og feðgarnir ákváðu að „heimsækja“ hana í tilefni dagsins.

Eins og Akureyri.net fjallaði um á síðasta ári tóku Karl-Werner og Gisela miklu ástfóstri við höfuðstað Norðurlands fyrir margt löngu og árið 2014 gáfu hjónin sveitarfélaginu stórmerkilegt safn Íslandskorta sem þau höfðu eignast á löngum tíma. Ekki nóg með það heldur nær sagan út yfir gröf og dauða því hjónin ákváðu að hér skyldu þau hvíla eftir andlátið og Gisela, sem lést 2019, er jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Karl-Werner verður lagður til hinstu hvílu við hlið konu sinnar þegar þar að kemur.

Blaðamaður fylgdi þeim Karl-Werner, sonunum Kai og Sven, og Moses, vini fjölskyldunnar og fyrrverandi nemanda Karls frá Tanzaníu, að leiði Giselu og var viðstaddur hjartnæma stund í garðinum.

Sven Schulte við leiði Giselu móður sinnar í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Karl-Werner faðir hans og Moses vinur þeirra fyrir aftan.

„Ég kom til fallegu Akureyrar þegar ég var yngri en það var ekki fyrr en 2019, eftir að mamma lést, að ég tengdist staðnum að einhverju marki,“ sagði Sven Schulte við Akureyri.net eftir stundina í Lögmannshlíð.

Akureyri einstakur bær

„Mér þykir afskaplega vænt um hve Akureyringar hafa tekið okkur vel og eru vinsamlegir í okkar garð á allan hátt. Íslendingar eru orðlagðir fyrir gestrisni en ég hef hvergi kynnst öðru eins og hér á Akureyri,“ sagði hann. „Samkenndin hér er mjög áberandi og ég vil sérstaklega nefna ótrúlega gestrisni og vináttu Haraldar [Þórs Egilssonar safnstjóra Minjasafnsins] og kvöldsins sem við áttum með Sigfúsi [Karlssyni, formanni stjórnar Minjasafnsins]. Okkur hefur virkilega liðið eins og heima hjá okkur, og fyrir það vil ég þakka frá dýpstu hjartarótum,“ sagði Sven Schulte.

Sven er mikill áhugamaður um tónlist og kveðst himinlifandi að hafa fengið tækifæri til að hlýða á nokkra íslenska músíkanta. „Það var einstaklega gaman að kynnast tónlist Íslendinganna og upplifa þannig fleiri perlur en Minjasafnið og náttúrufegurðina sem bærinn hefur upp á að bjóða. Mér var ýtt á bólakaf í menningarlaugina og met það mikils; það eflir enn tengingu okkar í fjölskyldunni við þennan einstaka bæ.“

Karl-Werner við blómabeð í Lystigarðinum þar sem meðal annars má sjá rósategundina Gleði Giselu; „Giselas Delight“ sem nefnd er eftir eiginkonu hans.

Hjónin eignuðust fyrsta Íslandskortið árið 1975. Karl-Werner rakst á kortið á uppboði í Limburg, stóðst ekki mátið og þá var ekki aftur snúið.

Þau veltu því lengi fyrir sér hvað yrði um kortasafnið eftir þeirra dag. Karl-Werner sagði, þegar þau Gisela afhentu Akureyringum fyrstu kortin árið 2014, að þau hefðu byrjað að hugleiða þetta um aldamótin og aðalmarkmiðið var að safninu yrði haldið í einu lagi.

„Við spurðum syni okkar hvort þeir hefðu áhuga á að erfa safnið. Þeir svöruðu því til að sá möguleiki væri fyrir hendi en þeir gætu ekki tryggt að afkomendur myndu varðveita það. Þegar við stungum upp á því að gefa kortin okkar einhverju safni á Íslandi samþykktu þeir það á stundinni.“

Þakklát sonunum

Karl-Werner Schulte segir hjónin sonunum afskaplega þakklát fyrir að hafa afsalað sér arfinum. Hann segir þau hafa viljað að kortin yrðu varðveitt á vinsælum ferðamannastað. Þeim varð hugsað til Akureyrar, þar sem þau höfðu átt mjög góðar stundir á ferðalögum og höfðu þess vegna samband við bæjaryfirvöld.

„Fyrir þremur árum hugleiddum við málið aftur. Ætti safnið að fara í hendur nýrra eigenda eftir okkar dag?“ sagði Karl-Werner við höfund þessarar greinar árið 2014. Úr vöndu hefði verið að ráða: annars vegar gætu þau rætt málin vandlega við Akureyringa, notið þess að ganga frá samningnum og verið viðstödd fyrstu sýninguna. „Hins vegar er safnið okkur ástríða og við hugleiddum hvort við kæmumst yfir þá þjáningu að láta kortin frá okkur,“ sagði hann þá.

Það varð Akureyringum til happs og gleði að niðurstaða hjónanna var sú að þau kæmust yfir þjáninguna ...

Karl-Werner Schulte, fjölskylduvinurinn Moses frá Tanzaníu og Sven Schulte við leiði Giselu.