Fara í efni
Íshokkí

Tvöfaldur sigur SA-kvenna um helgina

Tveir leikir, tveir sigrar. Myndirnar eru fengnar af Facebook-síðu íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar.

Kvennalið SA í íshokkí byrjaði nýja árið á sömu nótum og liðið hefur verið allt keppnistímabilið, með tveimur sigrum á liði Fjölnis í Skautahöllinni á Akureyri um helgina. SA er langefst í Toppdeild kvenna, hefur fjórum sinnum unnið 5-0 sigra á tímabilinu. 


Silvía Rán með þrennu

Fyrri leikur helgarinnar fór fram að kvöldi laugardags. SA hafði mikla yfirburði í leiknum og átti til dæmis samanlagt 47 skot á mark á móti 18 skotum gestanna. Fimm sinnum í þessum 47 markskotum fór pökkurinn í net gestanna á meðan Shawlee Geaudreault varði allt sem kom á mark SA. Lokatölur urðu 5-0 og er þetta fjórði 5-0 sigur SA-kvenna í vetur, þar af sá þriðji gegn Fjölni.

Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði þrennu, þar af tvö mörk í fyrstu lotunni. Herborg Rut Geirsdóttir bætti við þriðja markinu í annarri lotu og þær Silvía Rán og Lara Jóhannsdóttir skoruðu í þeirri þriðju.

SA - Fjölnir 5-0 (2-0, 1-0, 2-0)

SA

Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 3/0, Herborg Rut Geirsdóttir 1/0, Lara Jóhannsdóttir 1/0, Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir 0/2, Freyja Rán Sigurjónsdóttir 0/2, Aníta Júlíana Benjamínsdóttir 0/1, Arndís Sigurðardóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Geadreault 18 af 18 (100%).
Refsingar: 4 mínútur.

Fjölnir

Varin skot: Karítas Halldórsdóttir 42 af 47 (89,4%).
Refsingar: 10 mínútur.

Markaveisla í seinni leiknum

Sömu lið mættust aftur á sunnudagsmorgni eftir stutta næturhvíld. Eftir markaþurrð í fyrstu lotunni röðuðu SA-konur inn mörkunum í annarri lotu, náðu fjögurra marka forystu. Liðin buðu síðan bæði upp á markaveislu í þriðju lotunni, þrjú mörk SA og fjögur frá Fjölni og lokatölur því 7-4 SA í vil. Sjö leikmenn skoruðu eitt mark hver fyrir SA. Amanda Ýr Bjarnadóttir og Silvía Rán Björgvinsdóttir voru atkvæðamestar í liði SA, báðar með eitt mark og þrjár stoðsendingar.

SA - Fjölnir 7-4 (0-0, 4-0, 3-4)

SA

Mörk/stoðsendingar: Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/3, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/3, Sólrún Assa Arnardóttir 1/1, Eyrún Garðarsdóttir 1/1, Herborg Rut Geirsdóttir 1/1, Bergþóra Bergþórsdóttir 1/0, Magdalena Sulova 0/1,
Varin skot: Aníta Ósk Sævarsdóttir 19 af 23 (82,7%).
Refsingar: 10 mínútur.

Fjölnir

Mörk/stoðsendingar: Sara Sofía Bjarnadóttir 2/0, Elísa Dís Sigfinnsdóttir 1/2, Eva Hlynsdóttir 1/0, Laura-Ann Murphy 0/1, Karen Þórisdóttir 0/1.4
Varin skot: Karítas Halldórsdóttir 20 af 27 (74,1%).
Refsingar: 8 mínútur.

- - -

Þau tíðindi hafa orðið af streymi frá íshokkíleikjum að Íshokkísambandið hefur fært útsendingar af YouTube yfir í sína eigin áskriftarveitu á icehockeyiceland.tv í samstarfi við sænska fyrirtækið Sportway. Áhugasamir geta nú keypt aðgang að stökum leikjum eða þá áskrift í staka mánuði eða heilt ár. 

Hér verður því ekki vísað á upptökur eða mörkin í leikjunum eins og venjan hefur verið eftir streymin á YouTube.