Fara í efni
Íshokkí

Tvöfaldur sigur SA í Egilshöllinni

Jóhann Már Leifsson skoraði þrjú og átti eina stoðsendingu í gær. Silvía Rán skoraði eitt og átti eina stoðsendingu. Bæði SA-liðin unnu Fjölni.

Kvenna- og karlalið SA unnu bæði fyrsta leik sinn á Íslandsmótinu í íshokkí í gærkvöld. Kvennaliðið vann Fjölni 2-1 og karlaliðið vann Fjölni 7-3.

Fyrri leikur dagsins var viðureign liðanna sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn í vor, Fjölnis og SA. Markalaust var í fyrsta leikhluta, en Silvía Rán Björgvinsdóttir, marka- og stigadrottning síðasta tímabils, náði forystunni fyrir SA snemma í öðrum leikhluta eftir stoðsendingu frá Herborgu Rut Geirsdóttur.
Þær snéru svo dæminu við á fyrstu mínútu þriðja leikhluta þegar Herborg Rut skoraði eftir stoðsendingu Silvíu Ránar. Hilma Bóel Bergsdóttir skoraði eina mark Fjölnis, eftir stoðsendingu Teresu Snorradóttur, þegar innan við þrjár mínútur voru eftir. Heimakonum tókst ekki að bæta við marki og SA því með sigur í fyrsta leik, á móti Íslandsmeisturunum.

  • Hertz-deild kvenna
    Fjölnir - SA 1-2 (0-0, 0-1, 1-1)
  • Mörk/stoðsendingar
    Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/1, Herborg Rut Geirsdóttir 1/1
  • Varin skot
    Shawlee Gaudreault varði 24 skot í marki SA (96%) og Karitas Halldórsdóttir 25 skot í marki Fjölnis (93%).
  • Refsimínútur
    Fjölnisliðið hlaut 10 mínútur í refsingar, en SA fjórar.
  • Leikskýrslan (ihi.is)

Meira skorað hjá karlaliðunum

Leikur karlaliðanna var jafn í upphafi og staðan 1-1 eftir fyrsta leikhluta. Jóhann Már Leifsson náði forystunni fyrir SA en Andri Helgason jafnaði. Jóhann Már, Marek Vybostok og Uni Blöndal komu Akureyringum svo í þægilega stöðu með þremur mörkum í öðrum leikhluta. Ólafur Björgvinsson og Atli Sveinsson héldu áfram að sökkva Fjölnismönnum í byrjun þriðja leikhluta og komu SA í 6-1. Fjölnismenn vöknuðu aftur til lífsins um miðbik þriðja leikhlutans, skoruðu tvö mörk á nokkrum mínútum og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk áður en Jóhann Már svaraði og bætti við sjöunda marki SA og þriðja marki sínu.

  • Hertz-deild karla
    Fjölnir - SA 3-7 (1-1, 0-3, 2-3)
  • Mörk/stoðsendingar
    Jóhann Már Leifsson 3/1, Uni Blöndal 1/3, Atli Sveinsson 1/1, Baltasar Hjálmarsson 0/2, Dagur Jónasson 0/2, Marek Vybostok 1/0, Ólafur Björgvinsson 1/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 0/1
  • Varin skot
    Róbert Steingrímsson varði 42 skot (93%) í marki SA, en Þórir Aspar varði 37 skot (84%) í marki Fjölnis.
  • Refsimínútur
    Fjölnismenn söfnuðu mun fleiri mínútum í refsiboxinu, fengu samtals 33 mínútur á móti 12 mínútum hjá SA. Munaði þar mest um 5+20 mínútna dóm sem Brynjar Bergmann fékk fyrir átök eftir að leiktíma lauk í öðrum leikhlutanum.
  • Leikskýrslan (ihi.is)

Fyrsti heimaleikur beggja liða verður laugardaginn 28. september, en þá verður aftur svokallaður tvíhöfði þegar SA tekur á móti liði SR, bæði í kvenna- og karlaflokki.