Fara í efni
Íshokkí

Þórsarar sóttu eitt stig til Keflavíkur

Christian „Greko“ Jakobsen, til vinstri, gerði fyrra mark Þórs, það fyrsta fyrir félagið, og Sigfús Fannar Gunnarsson það síðara. Sigfús hefur gert níu mörk í deildinni í sumar og er næst markahæstur. Myndir: Skapti Hallgrímsson og Ármann Hinrik

Þórsarar nældu sér í eitt stig í gærkvöldi þegar þeir gerðu 2:2 jafntefli við Keflvíkinga á útivelli í 14. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Lið Þórs er í fimmta sæti með 24 stig.

Í sjónvarpsútsendingu frá leiknum virkaði völlurinn mjög háll og frekar laus í sér; leikmenn runnu hvað eftir annað og áttu í erfiðleikum með að halda jafnvægi – sem aldrei kom betur í ljós en á lokasekúndunum, og reyndist afdrifaríkt fyrir heimamenn.

Þórsarar höfðu mikla yfirburði fyrstu 20 mínútur leiksins og í raun var með ólíkindum að þeir næðu ekki að skora. Þvert gegn gangi leiksins náðu Keflvíkingar hins vegar forystunni og aðdragandinn var klaufalegur; Ýmir Geirsson ætlaði að senda boltann langt utan af velli á Aron Birki markvörð en sendingin var ónákvæm og föst þannig að boltinn fór aftur fyrir endalínu. Keflavík fékk því hornspyrnu og þegar boltinn kom fyrir markið skoraði Ásgeir Páll Magnússon með skalla.

Þegar rúmlega hálftími var liðinn jöfnuðu Þórsarar og þar var að verki Christian „Greko“ Jakobsen. Þetta var fyrsta mark Danans í Þórstreyjunni, í öðrum leik hans fyrir félagið. Ibrahima Balde átti frábæra sendingu utan af hægri kanti, Jakobsen passaði sig á að falla ekki í rangstöðugildru, fékk boltann aleinn í miðjum vítateig og skoraði. 

Sá danski fékk dauðafæri strax í byrjun leiks en hitti ekki boltann og á síðustu augnablikum fyrri hálfleiksins var hann nálægt því að bæta við marki. Fékk boltann í góðu færi og þrumaði að marki, varnarmaður henti sér fyrir og af honum fór boltinn naumlega yfir þverslána.

Sigfús Fannar Gunnarsson kom Þór yfir þegar um 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, með níunda marki sínu í deildinni í sumar. Sigfús fékk boltann á vinstri kantinum, lék auðveldlega framhjá varnarmanni og sendi boltann í netið án þess að Sindri markvörður fengi neitt við ráðið. Feykilega vel gert hjá Sigfúsi.

Aftur varð jafn þegar þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður þegar Keflvíkingar skoruðu aftur eftir hornspyrnu. Boltinn var sendur yfir á markteigshornið fjær, þrír varnarmenn gættu eins sóknarmanns en Marin Brigic var óvaldaður þar fyrir aftan og skoraði með viðstöðulausu skoti. Afar klaufalegt hjá Þórsurum.

Þórsarar sluppu með skrekkinn þegar hefðbundnar 90 mínútur voru liðnar skv. vallarklukkunni. Keflvíkingar fengu þá vítaspyrnu þegar Kári Sigfússon féll í teignum; dómurinn sá var reyndar afar umdeildur svo ekki sé meira sagt, nánast hlægilegur að því er best varð séð í sjónvarpsútsendingu – en líklega má kenna vallaraðstæðum um hvernig Mumaned Alghoul tókst til þegar hann ætli sér að skora úr vítinu; rann illilega til þegar hann spyrnti og boltinn sveif í boga langt framhjá markinu. Ótrúlegt á að horfa.

Lítið var eftir en þó tími fyrir eitt dauðafæri Þórsara. Þeir fengu aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn, Einar Freyr Halldórsson spyrnti fyrir markið beint á kolllinn á Ragnari Óla sem skallaði en hitti boltann ekki nógu vel þannig að hann fór framhjá markinu.

ÍR og Njarðvík gerðu jafntefli í gærkvöldi þannig að er ÍR er enn efst, með 29 stig. Njarðvík er með 28 og HK, sem vann Leikni 1:0 í gær, er með 27 stig. Þróttur vann 2:1 í Grindavík og komst stigi upp fyrir Þór; Þórsarar eru nú í fimmta sæti með 24 stig, sem fyrr segir, tveimur meira en Keflvíkingar.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni