Fara í efni
Íshokkí

KA féll úr leik eftir æsilega framlengingu

KA-menn voru gríðarlega vonsviknir þegar flautað var til leiksloka í kvöld og máttu vera það; þeir fengu góð tækifæri til að skora meira og hefðu getað unnið leikinn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Seinni viðureign KA gegn Silkeborg frá Danmörku í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu fór fram á KA-vellinum í kvöld, fimmtudagskvöld. Fyrri leik liðanna á heimavelli Dananna lauk með 1:1 jafntefli og því ljóst að nú yrði leikið yrði til þrautar. Eftir miklar sviptingar, spennu, framlengingu og dramatík náði Silkeborg að knýja fram nauman 3:2 sigur í blálokin. Danska liðið fer því áfram í 3. umferð keppninnar en Evrópuævintýri KA er lokið í ár.

Birnir Snær Ingason, nýjasti liðsmaður KA, var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn og það var Jóan Símun Edmundsson líka. Hann var í leikbanni í fyrri leiknum, sem kom upp dúrnum þegar rifjaðist upp að hann hafði fengið rautt spjald í Evrópuleik KA gegn Club Brugge árið 2023!

Flautað var til leiks kl. 18 og það dró til tíðinda áður en fimm mínútur voru liðnar. Hrannar Björn Steingrímsson fékk boltann í höndina þar sem hann stóð við vítateiginn og dómarinn mat það svo að hann hefði verið inni í teignum. Að minnsta kosti handleggurinn. Sannarlega með arnarsjón sá finnski og benti á vítapunktinn. Í markinu hjá KA stóð hins vegar Steinþór Már Auðunsson og sá piltur hefur varið fullt af vítum um ævina. Og skorað úr nokkrum að auki. Enda sá hann hvað Tonni Adamsen ætlaði að gera, löngu áður en sá danski vissi það sjálfur, henti sér niður til vinstri og varði vítið frábærlega.

Steinþór Már Auðunsson gerði sér lítið fyrir og varði auðveldlega vítaspyrnu Tonni Adamsen snemma leiks. Las Adamsen eins og opna bók en sá danski hafði svo betur þegar upp var staðið; gerði öll þrjú mörk Silkeborgar og fagnaði sigri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir þetta þróaðist leikurinn eins og margir bjuggust við fyrirfram. Silkeborg var meira með boltann og KA varðist vel og skipulega. Eftir hálftíma leik hljóp á snærið hjá heimamönnum þegar fyrirliðinn Ívar Örn Árnason skeiðaði langt út úr sinni landhelgi, vann boltann með harðfylgi, missti hann svo en elti hann uppi við vítateig andstæðinganna. Einhverra hluta vegna tókst Silkiborgurum ekki að ná valdi á knettinum og Ívar náði honum inni í teig. Danski markvörðurinn kom þá út á móti Ívari og braut klaufalega á honum. Vítaspyrna dæmd - og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði örugglega úr henni. Meðbyrinn var skyndilega allur KA-megin og þeir komnir með forystu í einvíginu.

Fyrirliðaslagur! Nicolai Larsen, markvörður Silkeborgar, brýtur á Ívari Erni Árnasyni og vítaspyrna var dæmd. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Leikar stóðu 1:0 KA í vil þegar gengið var til leikhlés. Stuðningsmenn KA létu vel í sér heyra á pöllunum, ánægðir með gang mála í leiknum, og í fréttamannaherberginu var splæst í tvær sortir af forláta kremkexi handa fjölmiðlafólkinu. Það var einhver bjartsýni í loftinu enda höfðu heimamenn ekki lent í verulegum vandræðum með Danina í fyrri hálfleik. Þótt gestirnir væru meira með boltann gekk þeim ekkert að skapa sér færi og virkuðu ryðgaðir.

 

Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar af öryggi úr vítaspyrnunni og kemur KA í 1:0. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Upphafsmínútur seinni hálfleiks gáfu til kynna að hvorugt liðið ætlaði sér að gefa eftir. Danirnir settu varamann inn á í hléinu sem var greinilega ætlað að rífa baráttuna í gang og hefði verðskuldað gult spjald tvívegis í upphafi hálfleiksins fyrir hörku sem keyrði úr hófi. Jöfnunarmarkið á 54. mínútu kom þó eiginlega upp úr engu. Sókn KA rann út í sandinn og Silkeborg náði skyndisókn gegn fáum varnarmönnum. Jens Martin Gammelby geystist upp hægri kantinn og kom boltanum fyrir markið þar sem Tonni Adamsen bætti fyrir vítaklúðrið með því að renna sér á knöttinn og koma honum í netið. Allt orðið jafnt á ný.

Á þessum kafla leiksins virtust leikmenn Silkeborg aðeins vakna til lífsins, samleikur þeirra varð hraðari og markvissari en áður. Og átta mínútum eftir jöfnunarmarkið komust gestirnir yfir, eftir lipurt spil sem endaði með nettri hælsendingu Younez Bakiz inn á títtnefndan Tonni Adamsen. Hann var einn á auðum sjó og lyfti knettinum snyrtilega yfir Steinþór í markinu.

Nú voru Danirnir farnir að krafsa í pálmann með krumlunum en þó engan veginn komnir með hann í hendurnar. KA skipti inn á þeim Ásgeiri Sigurgeirssyni og Viðari Erni Kjartanssyni þegar 20 mínútur lifðu leiks. Sú breyting skilaði árangri fimm mínútum fyrir leikslok. Ásgeir fékk sendingu upp hægri kantinn og gerði mjög vel að bíða með fyrirgjöfina þangað til á hárréttu augnabliki. Og þá var Viðar Örn mættur á hárréttan stað og skoraði af stuttu færi. Hans fyrsta mark í sumar, leikurinn orðinn jafn á ný! Þvílík dramatík og þvílík tímasetning!

Ásgeir Sigurgeirsson brunaði fram hægri kantinn þegar fimm mínútur voru eftir samkvæmt vallarklukkunni, og sendi boltann á hárréttum tíma fyrir markið ... Mynd: Skapti Hallgrímsson

... þar sem Viðar Örn Kjartansson var réttur maður á réttum stað – á réttum tíma – og jafnaði fyrir KA! Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Hvorugu liðinu tókst að gera út um leikinn á síðustu mínútum venjulegs leiktíma og því var framlengt. Leikmenn KA virkuðu þreyttari undir lok venjulegs leiktíma og ekki hefði komið á óvart þó að þeir myndu gefa eftir í framlengingunni. En það var öðru nær og í fyrri hálfleik framlengingar voru heimamenn sprækara liðið. Og fengu langbesta færið, þegar Dagur Ingi Valsson fékk boltann einn á auðum sjó í miðjum vítateignum eftir frábæran undirbúning Hallgríms Mars. Skot hans hitti hins vegar ekki á rammann.

Þegar seinni hálfleikur framlengingar var hálfnaður fékk Silkeborg einnig dauðafæri, þegar Asbjørn Bøndergaard komst einn gegn Steinþóri en þrumaði boltanum langleiðina vestur að Nettó.

Allt er þegar þrennt er! Tonni Adamsen (23) lætur vaða ár markið og skömmu síðar small boltinn í þverslá KA-marksins og fór þaðan í netið. Sigurmarkið í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þegar margir áhorfendur voru farnir að búast við vítaspyrnukeppni kom markið sem réði úrslitum í leiknum. Leikmenn Silkeborg voru að dunda við að senda boltann á milli sín fyrir utan vítateig KA og fengu kannski helst til of mikið næði til þess. Þegar oftnefndur Tonni Adamsen áttaði sig á þeirri stöðu, lagði hann knöttinn fyrir sig rétt utan vítateigsbogans og bombaði honum í þverslá og inn. Þrenna hjá kappanum, sem er örugglega búinn að gleyma vítinu sem hann klúðraði í upphafi leiks.

Nicolai Larsen ver skot Dags Inga Valssonar á ögurstundu, eftir að Ásgeir Sigurgeirsson hafði skotið í stöng Silkeborgarmarksins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Rétt á eftir þessu marki voru KA-menn grátlega nærri því að jafna leikinn. Ásgeir fékk knöttinn inni í vítateig Silkeborg og laumaði honum hnitmiðað framhjá Larsen markverði. Boltinn hafnaði hins vegar í innanverðri stönginni - Dagur Ingi var fyrstur á boltann en Larsen varði skot hans frábærlega.

Þær örfáu mínútur sem lifðu leiks dugðu KA ekki til að jafna leikinn og Silkeborg fer því naumlega áfram í Evrópukeppninni á dramatískan hátt. Vissulega voru Danirnir meira með boltann í leiknum en á löngum köflum var lítið að gerast í leik þeirra. KA-liðið lék skipulega, leikmenn lögðu sig alla fram og börðust til síðustu mínútu. Ef heppnin hefði verið með þeim í liði gætu þeir allt eins hafa unnið þennan leik. Svo varð ekki að þessu sinni en þeim tókst að veita andstæðingi sínum verðuga keppni og geta gengið stoltir - en vonsviknir - frá viðureigninni.