Fara í efni
Hjólreiðar

Blak: KA-konur töpuðu tvisvar gegn HK

Lið HK hafði ástæðu til að gleðjast eftir að hafa lagt KA tvívegis að velli um helgina. Mynd: volleyball.is

Eftir að hafa unnið fyrstu 10 leiki sína í Unbroken-deild kvenna í blaki þurfti KA-liðið loks að játa ósigur, þegar HK kom í heimsókn í KA-heimilið. Liðin mættust tvisvar um helgina og gestirnir höfðu betur í báðum viðureignum.

Fyrir leikinn voru þessi lið langefst í deildinni, KA taplaust og HK hafði aðeins tapað einum leik. Fyrirfram var því búist við jöfnum viðureignum en sigur HK var þó talsvert öruggur í báðum leikjum. Á laugardaginn vann HK 3:0 og seinni leikurinn á sunnudag fór 3:1.

HK vann fyrstu hrinuna í laugardagsleiknum nokkuð örugglega, 25:16, og komst síðan í 2:0 með 25:21 sigri í mun jafnari annarri hrinu. Í þriðju hrinu voru gestirnar með forystu lengst af en KA náði góðum kafla eftir miðbik hrinunnar og komst yfir, 21:20. En HK-stelpurnar voru sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér 3:0 sigur í leiknum með því að vinna hrinuna naumlega, 25:23.

HK vann sunnudagsleikinn líka örugglega

Í sunnudagsleiknum hélt HK uppteknum hætti og vann fyrstu hrinuna 25:19, eftir að KA hafði verið með yfirhöndina framan af. KA-stelpurnar náðu sömuleiðis forystunni í annarri hrinu og kláruðu hana örugglega, 25:17. HK komst aftur yfir í leiknum með auðveldum 25:12 sigri í þriðju hrinu og kláruðu leikinn með því að knýja fram 25:20 sigur í nokkuð jafnri fjórðu hrinu. Lokatölur 3:1 HK í vil og með þessum tveimur sigrum náði HK forystunni í deildinni. KA er í öðru sæti og næsti leikur liðsins er gegn Völsungi eftir rúman mánuð.