Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Fundu 70 ára jólakort frá „silfurmanninum“

Jólakortið sem Vilhjálmur Einarsson sendi skólameistara MA og eiginkonu hans 1954. Á kortinu er blýantsteikning af Baker-bókasafni skólans eftir listamanninn Charles H. Overly. Mynd: MA.

Jólakort sem Vilhjálmur Einarsson, síðar silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum, sendi skólameistara Menntaskólans á Akureyri og eiginkonu hans, árið 1954, fannst á dögunum í kassa í skólanum.

Vilhjálmur var nemandi við MA og stundaði íþróttir af kappi, en kortið sendi hann frá Bandaríkjunum þar sem hann stundaði háskólanám við Dartmouth-háskóla í New Hampshire, eftir að hann lauk stúdentsprófi við MA. Kortið er dagsett 6. desember 1954, en rétt tæpum tveimur árum síðar, þann 27. nóveber 1956, varð Vilhjálmur fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum þegar hann hreppti silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Sonur Vilhjálms, Unnar, hefur um árabil kennt íþróttir við Menntaskólann.


Unnar Vilhjálmsson, íþróttakennari við MA, frjálsíþróttaþjálfari og sonur Vilhjálms Einarssonar, virðir fyrir sér jólakortið sem faðir hans sendi 1954. Mynd: MA.

Frá þessu er sagt á vef og Facebook-síðu skólans ásamt mynd af kortinu, Unnari syni Vilhjálms og hópmynd af íþróttagörpum úr MA.

Menntaskólinn á Akureyri á mörg gömul póstkort. Þau eru geymd í kössum en flest þeirra hafa ekki litið dagsins ljós áratugum saman. Á dögunum fannst skemmtilegt jólakort stílað á skólameistara og eiginkonu hans í Menntaskólanum, dagsett 6. desember 1954. Sendandinn hafði þá nýlega lokið námi við MA og var farinn að stunda háskólanám á fjarlægum slóðum. Svo skemmtilega vill til að sonur umrædds nemanda er kennari við MA í dag. Vilhjálmur Einarsson (5. júní 1934 - 28. desember 2019) var í MA í upphafi sjötta áratugarins og stundaði þá íþróttir af miklum móð samhliða námi. Í framhaldinu hóf hann nám við Dartmouth-háskóla (Dartmouth College) í New Hampshire í Bandaríkjunum. Jólakortið prýðir blýantsteikning af Baker-bókasafni skólans eftir listamanninn Charles H. Overly. Jólakveðjuna skrifaði Vilhjálmur til hjónanna Margrétar Eiríksdóttur og Þórarins Björnssonar. Tveimur árum seinna skráði Vilhjálmur nafn sitt á spjöld íþróttasögunnar þegar hann hlaut silfur í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne og setti jafnframt Ólympíumet. Unnar Vilhjálmsson hefur kennt við MA um langt árabil. Eins og faðir hans fyrrum, hefur Unnar á þeim tíma sinnt íþróttaiðkun við skólann af miklum krafti. Íþróttir hafa verið hans ær og kýr og þá ekki síst íþróttaiðkun nemenda. Á meðfylgjandi myndum má sjá Unnar virða fyrir sér jólakortið sem faðir hans sendi til skólans fyrir 70 árum síðan. Á liðsmyndinni er hópur íþróttagarpa úr MA. Vilhjálmur er fyrir miðju aftan við unga manninn með bikarinn.


Íþróttagarpar í MA. Vilhjálmur er standandi fyrir miðju. Eflaust geta lesendur Akureyri.net upplýst um nöfn hinna.