Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Dúkkuföt frá Heklu og Gefjun – en þó ekki

SÖFNIN OKKAR – 82

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Mest alla 20. öldina var fataiðnaður og klæðagerð á Akureyri í miklum blóma. Stærstu fataverksmiðjurnar voru Gefjun og Hekla, en þær voru báðar á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga. Iðnaðarsafnið á Akureyri á í fórum sínum töluvert af fötum sem framleidd voru á Akureyri. Nýverið barst safninu forvitnileg fatagjöf sem tengist bæði Gefjun og Heklu en hún er þó nokkuð óvenjuleg. Ekki er um að ræða hefðbundnar flíkur á börn eða fullorðna heldur dúkku, en hvorugur staðurinn framleiddi þó föt á dúkkur. 

Gefandinn, Brynhildur Garðarsdóttir fékk fötin að gjöf þegar hún var um innan við 10 ára gömul eða fyrir 1960. Móðir hennar, Hildigunnur Magnúsdóttir (1915–1994) vann á Heklu í mörg ár. Einhver jólin hefur hún fengið efni og afgangsbúta frá Heklu, en ætlunin var að sauma sitthvora dúkkuúlpuna handa tveimur yngstu dætrum sínum og gefa þeim í jólagjöf. Einnig prjónaði Hildigunnur dúkkupeysur handa dætrunum og notaði garn frá Gefjun. Hekla var þá til húsa í Hafnarstræti 93 en Gefjun í verksmiðjuhúsnæði á Gleráreyrum. Hildigunnur vann verkið í frítíma sínum þegar færi gafst og vöktu dúkkuflíkurnar mikla lukku. Hún var afar flink þegar kom að hannyrðum og bæði saumaði og prjónaði flest allar flíkur á sín börn, en þau voru sex talsins.

Konur að störfum í fataverksmiðjunni Heklu. Mynd: Gunnlaugur P. Kristinsson/Minjasafnið á Akureyri

Það sem er einkar skemmtilegt við þessi dúkkuföt er að þau eru gerð eftir uppskriftum af sams konar fötum og þá var verið að framleiða á Akureyri, þó svo að þau séu mögulega ekki nákvæmlega eins. Til að mynda átti Brynhildur og vinkonur hennar sams konur peysur og dúkkupeysuna, en þær munu hafa komið í fleiri litum. Því miður á Iðnaðarsafnið ekki úlpu sem er alveg eins og þessi en sannarlega eru nokkrar sem líkjast henni mjög. Hið sama á við um Gefjunarpeysuna. Gaman væri því að vita hvort einhver muni eftir slíkum úlpum eða peysum og jafnvel eigi ennþá.

Dúkkufötin eru nú til sýnis á Iðnaðarsafninu á Akureyri ásamt ýmsum öðrum fatnaði sem framleiddur var á Akureyri á síðustu öld. Safnið er opið daglega í sumar frá 11–17.

Vörur frá fataverksmiðjunni Heklu í glugga verslunar KEA (Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri) í Hafnarstræti 93 á Akureyri.