Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

„Ammæli“ Baldvins af sýningu Norðlendinga

SÖFNIN OKKAR – 100

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Baldvin Ringsted
Ammæli
2023
Akríl-spegill, viður

Baldvin Ringsted er fæddur og uppalinn á Akureyri, en býr nú og starfar í Skotlandi. Hann vinnur með ýmis efni og miðla, þ.m.t. málverk, prent, skúlptúra og vídeó. Hann lauk mastersgráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007, en hafði áður lokið námi við Myndlistaskólann á Akureyri og Lahti Polytechnic School of Art í Finnlandi. Baldvin hefur sýnt verk sín víða um heim, s.s. á Bretlandseyjum, Íslandi, í Bandaríkjunum og Þýskalandi og hlaut nýlega verðlaun frá The Scottish Landscape Awards. Hann sækir efnistök verkanna oft að einhverju leyti í þekkingu sína og reynslu af tónlist og hljóðfæraleik. Verk hans kanna annars vegar sambandið milli hljóðs og mynda og hins vegar milli sögu og strúktúrs.

„Sem starfandi listamaður hef ég áhuga á heyrnarminni, þ.e.a.s. hvernig fólk man hljóð og hvernig hljóðið getur framkallað hugdettur og myndir og svo öfugt,“ segir Baldvin. Þetta tengist bæði persónulegri reynslu og sögulegum atburðum eða dægurmenningu. Venjulega set ég hugmyndina eða „handritið“ fyrir nýtt verk fram líkt og tónskáld myndi skrifa niður nótur áður en það afhenti verk til flutnings. Í þeim skilningi stólar mín vinna sjaldan eingöngu á tilviljanir og spuna.“

Verkið sem hér er til umfjöllunar kom fyrst fyrir sjónir almennings á samsýningu norðlenskra myndlistarmanna, sem haldin var í Listasafninu á Akureyri í júní til september 2023 undir yfirskriftinni Afmæli. Titill sýningarinnar var tilvísun í 30 ára afmæli Listasafnsins það árið. Verkið prýddi kynningarmynd sýningarinnar og festi Listasafnið kaup á því að sýningartíma liðnum.