Fara í efni
Heilsugæslan

Tveir yfirlæknar á ný að þremur árum liðnum

Jón Torfi Halldórsson yfirlæknir, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Valur Helgi Kristinsson yfirlæknir. Sunnuhlíð í bakgrunni, þar sem ný heilsugæslustöð verður opnuð í byrjun næsta árs.

Jón Helgi Björns­son, for­stjóri Heil­brigðis­stofn­un­ar Norður­lands (HSN), seg­ir að ekki hafi verið forsendur fyrir því að tveir yfirlæknar yrðu starfandi á heilsugæslustöðinni á Akureyri þegar fyrir lá að starfsemin yrði á einum stað næstu misseri en ekki tveimur eins og til stóð.

Þegar ný heilsugæslustöð verði opnuð á Brekkunni, eftir tvö og hálft til þrjú ár, verði hins vegar ráðinn yfirlæknir þar. Jóni Helga þykir miður að starfsfólki heilsugæslunnar þyki stofnunin hafa komið illa fram við þá sem hlut eiga að máli, það hafi alls ekki verið ætlunin.

Fréttir Akureyri.net í gær um uppsögn beggja yfirlækna HSN á Akureyri, um viðbrögð þeirra tveggja og ályktun læknaráðs, vöktu gríðarlega athygli. Annar yfirlæknanna, Valur Helgi Kristinsson, sagðist myndu hætta sem heimilislæknir um áramót og ekki sækja um stöðu yfirlæknis en hinn, Jón Torfi Halldórsson, kvaðst vera að hugsa sinn gang.

Fréttir Akureyri.net í gær:

Jón Helgi Björnsson sagði í samtali við Akureyri.net í dag að vegna gríðarlegs álags á stöðinni eftir að Covid heimsfaraldurinn skall á hefði verið ráðinn annar yfirlæknir með Jóni Torfa Halldórssyni. „Það var rosalegt álag í Covid og virkaði mjög vel að vera með tvo yfirlækna. Valur kom mjög sterkur inn, enda einstakur verkmaður,“ segir Jón Helgi.

Mygla og því fara allir læknar í Sunnuhlíð

Heilsugæslustöðin á Akureyri hefur árum saman við verið Hafnarstræti í miðbænum. Um áramót verður tilbúið húsnæði fyrir aðra stöð í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð í Glerárhverfi og gert var ráð fyrir að starfsemi yrði á tveimur stöðum framvegis; annars vegar í Sunnuhlíð, hins vegar sunnan Glerár – fyrst í stað á gamla staðnum í miðbænum en síðan á nýrri stöð sem reist verður við Þingvallastræti. Þess vegna var ráðgert að tveir yfirlæknar yrðu áfram við störf en vegna myglu í heilsugæslunni við Hafnarstræti verður að flytja alla starfsemi þaðan. Allir læknar verða í Sunnuhlíð frá áramótum en ýmsir aðrir starfsmenn stofnunarinnar eru í leiguhúsnæði annars staðar í bænum.

„Þegar ljóst varð að við förum ekki í tvær heilsugæslustöðvar fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö og hálft eða þrjú ár voru ekki forsendur fyrir því að vera með tvo yfirmenn yfir sömu einingu. Okkur fannst hyggilegra að aftur yrði einn yfirlæknir, sem tæki við stöðinni í Sunnuhlíð og miðað  við reglur með skipulagi í opinberum rekstri sáum við ekki aðra leið en að leggja báðar stöðurnar formlega niður og auglýsa eina,“ segir Jón Helgi Björnsson, „bjóða báðum yfirlæknunum áframhaldi starf sem heimilislæknum og gefa þeim tækifæri til að sækja um stjórnunarstöðuna hefðu þeir hug á því.“

Fleiri breytingar eru í bígerð á stofnuninni, deildarstjórum verður fækkað og krafa gerð um að starfsmenn geti sinnt störfum á að minnsta kosti tveimur sérsviðum. „Tilgangurinn með þeim breytingum er að minnka deildarmúra og auka samstarf og flæði á stöðinni,“ segir Jón Helgi.

Forstjóranum finnst miður að starfsfólki HSN þyki að ekki hafi verið komið vel fram við yfirlæknana. Það hafi vitaskuld alls ekki verið ætlunin. „Mér þykir leitt ef menn hafa fengið það á tilfinninguna.“ 

Jón Helgi segir að ekki verði hætt við breytingarnar, eins og læknaráð hefur krafist, vegna þess að fyrir þeim séu skýr rök, „en við meðtökum auðvitað þá gagnrýni sem við höfum fengið frá okkar starfsfólki um það hvernig staðið var að málinu og það kynnt. Við verðum að læra af þessu og reyna að gera betur næst.“