Fara í efni
Grímsey

BSO fær sex mánaða frest til brottfarar

Bæjarráð hefur staðfest úthlutun skipulagsráðs frá 13. ágúst á lóðunum Hofsbót 1 og 3 til SS Byggis ehf. Í afgreiðslu bæjarráðs kemur fram að þessi ákvörðun feli í sér að Bifreiðastöð Oddeyrar ehf. (BS0) þurfi að fara með starfsemi sína og húsakost af lóð við Strandgötu innan sex mánaða. Jafnframt hafnaði bæjarráð erindi frá BSO þar sem úthlutuninni var mótmælt á þeim grundvelli að málaferlum um lóðina sé ekki lokið. Ákvörðun bæjarráðs er fullnaðarafgreiðsla þar sem bæjarstjórn er í sumarleyfi. 

Lóðirnar tvær hafa að vilja bæjaryfirvalda frá upphafi verið boðnar út saman. Athafnasvæði BSO á lóð við Strandgötu er innan marka þeirra lóða sem skilgreindar eru í skipulagi sem Hofsbót 1 og 3. Akureyrarbær auglýsti eftir tilboðum í byggingarrétt á lóðunum tveimur í júní í fyrra, en engin tilboð bárust. Aftur var auglýst í maímánuði á þessu ári og bárust þá tvö tilboð í byggingarréttinn. SS Byggir ehf. bauð 251 milljón og eina krónu, en Sigtún þróunarfélag ehf. bauð 235 milljónir króna. 

Lóðirnar Hofsbót 1 og 3 eru afmarkaðar á þessari mynd Þorgeirs Baldurssonar með rauðu, en bygging BSO þar sem er aðstaða bílstjóra auk sjoppu er neðst til vinstri á myndinni. 

Málið sem BSO vísaði til í erindi sínu til bæjarráðs snýst um efnislega meðferð á kröfu um lóðarréttindi og byggingarrétt á lóð við Strandgötu þar sem leigubílastöðin hefur haft aðstöðu frá 1955. Því máli var vísað frá héraðsdómi, en Landsréttur snéri þeirri ákvörðun við og gerði Héraðsdómi Norðurlands eystra að taka málið til meðferðar.

Því máli er ólokið eins og áður sagði, en krafa BSO er að viðurkennt verði með dómi að BSO eigi „ótímabundin og óuppsegjanleg lóðarréttindi“ til 1.125 fermetra lóðar við Strandgötu sem auðkennd er með númerinu L149563, lóðar sem afmörkuð hafi verið af Akureyrarbæ þegar gerður var samningur um leigu á lóðinni 1955. Til vara krafðist BSO þess að viðurkennt verði með dómi að félagið eigi ótímabundinn afnotarétt til lóðarinnar. Þá var einnig krafa BSO að viðurkennt yrði að byggingarleyfi sem BSO segir Akureyrarbæ hafa veitt sér 7. september 1955 um byggingu afgreiðsluhúss á lóðinni hafi verið „án takmarkana, óuppsejganlegt og ótímabundið“.

Um nokkurn tíma hefur endastöð Strætisvagna Akureyrar verið í Hofsbótinni, skammt frá aðstöðu BSO, en í bígerð er að byggja upp stöð við Borgarbraut, á bakka Glerár skammt ofan við brú. Þar er áætlað að byggja göngubrú og aðstöðu fyrir SVA, en umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hafnaði í vor eina tilboðinu sem barst í það verk.