Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Leikjahæstur Þórsara og faðir afreksmanna

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXVIII

Íþróttafrétt vikunnar á Akureyri og þótt víðar væri leitað var sú að landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu til margra ára, Aron Einar Gunnarsson, samdi til tveggja ára við uppeldisfélag sitt, Þór. Af því tilefni er upplagt að gamla íþróttamyndin þessa vikuna sé af þeim frækna handboltakappa, Gunnari Malmquist Gunnarssyni. Gunnar er faðir tveggja mikilla afreksmanna í íþróttum eins og margir vita, Arons Einars og Arnórs Þórs, sem starfað hefur sem handboltamaður í Þýskalandi til fjölda ára og hefur einnig verið landsliðsfyrirliði eins og litli bróðir – á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í ársbyrjun 2021.

Myndin er tekin í íþróttahöllinni á Akureyri, fljótlega eftir að hún var tekin í notkun snemma á níunda áratugnum. Gunnar Malmquist er þar í kunnuglegri stellingu og það er næsta víst að augnabliki síðar hefur boltinn þanið út netmöskvana að baki markvarðarins.

Gunnar Malmquist – á Akureyri aldrei kallaður annað en Gunni Mall – átti rúmlega 500 leiki að baki í meistaraflokki Þórs í handbolta þegar hann lagði skóna á hilluna árið 1987, eftir 17 ár í meistaraflokki.  Hann er leikjahæstur allra Þórsara, þjálfaði auk þess alla yngri flokka félagsins á sínum tíma, auk meistaraflokks bæði karla og kvenna, og þá var hann handboltadómari í áratugi.

Gunni Mall hefur verið í félaginu frá barnsaldri og segja má að hann sé tengdur Þór fjölskylduböndum; afabróðir hans, Friðrik Sigurður Einarsson, stofnaði Þór árið 1915 og var fyrsti formaður. Bróðir Friðriks og afi Gunnars, Einar Malmquist, var svo formaður félagsins frá 1925 til 1930.