Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Alfreð Gíslason „reiðir hátt til hefndarhöggs“

Mynd: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 112

Alfreð Gíslason stýrir þýska landsliðinu gegn því danska í úrslitaleik Evrópumótsins í handbolta á morgun í Danmörku og því er vel við hæfi að gamla íþróttamyndin í dag skarti Alfreð í aðalhlutverki, og ekki í fyrsta skipti. 

Flestum er kunnugt að Alfreð hefur náð fádæma árangri sem þjálfari í gegnum tíðina; eftir glæsilegan feril sem leikmaður í Þýskalandi og á Spáni sneri hann heim til KA árið 1991, tók við þjálfun uppeldisfélagsins og lék með því um tíma. KA varð bikarmeistari undir stjórn Alfreðs 1995 og 1996, og síðan Íslandsmeistari 1997. Hann hélt utan á ný 1997 og hefur starfað við þjálfun síðan, um þrjá áratugi. Nánar um stórkostlegan þjálfaraferil Alfreðs síðar.

Mynd dagsins tók núverandi ritstjóri akureyri.net, þá menntskælingur á 17. ári, í febrúar 1979 – fyrir 47 árum! Hún birtist í Norðurlandi, vikublaði Alþýðubandalagsins.

Þarna eigast við KA og Þór í íþróttaskemmunni á Oddeyri áður en Alfreð hélt á vit ævintýranna erlendis, og segja má að myndin sé táknræn að því leyti að hann hefur oft borið höfuð og herðar yfir andstæðinga sína í gegnum tíðina.

„Hátt skal reitt til hefndarhöggs. Alfreð Gíslason á lofti,“ og má til sanns vegar færa. Leikurinn endaði með jafntefli, 22:22, og hófst frásögn Einars Björnssonar í Norðurlandi á þessum orðum:

„Á miðvikudaginn í sl. viku fór fram viðureign erkifjendanna Þórs og KA um Akureyrartitilinn í handknattleik 1979. Þegar þessi tvö lið etja kappi saman þurfa menn ekki að óttast neina lognmollu eða doða inn á leikvellinum.“

Einar sagði ennfremur: „Þessi leikur bar það líka með sér að bæði liðin höfðu einsett sér að sanna yfirburði sína fyrir lýðnum. Þrátt fyrir allt var óvenju lítið um stimpingar og pústra leikmanna á millum ef  miðað er við fyrri orustur liðanna.“