Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Jón Egilsson slær af teig á gamla golfvellinum

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 80

Golfvöllurinn að Jaðri var opnaður fyrir tæpum hálfum mánuði og hefur verið nánast fullbókaður síðan. Menn muna vart annað eins; margir voru augljóslega fullir tilhlökkunar, völlurinn þykir líka mjög góður miðað við árstíma og ekki hefur veðrið dregið úr áhuganum – um það bil 20 stiga hiti og sól nánast alla daga.

Tilvalið er í ljósi þessa að gamla íþróttamyndin í dag sé af landsfrægum Akureyringi og góðum kylfingi. Myndina fékk ritstjóri Akureyri.net fyrir nokkrum árum úr safni Sigtryggs heitins Júlíussonar, hárskera, sem varð Íslandsmeistari í golfi árið 1946, fyrstur Akureyringa.

Íslandsmótið 1946 fór fram á gamla golfvellinum við Þórunnarstræti á Akureyri og mynd dagsins er einmitt tekin þar. Það er Jón Egilsson sem slær þarna af teig. Jón, stofnandi Ferðaskrifstofu Akureyrar og forstjóri hennar til áratuga, varð Akureyrarmeistari í golfi þrjú ár í röð á vellinum. Svo skemmtilega vildi til að fyrsta meistaratitlinum fagnaði Jón 1947, sama ár og hann setti ferðaskrifstofuna á laggirnar.
_ _ _

Golfklúbbur Akureyrar var stofnaður 1935 og er næst elsti golfklúbbur landsins. Fyrst um sinn fékk klúbburinn úthlutað svæði á Gleráreyrum þar sem síðar varð athafnasvæði Slippstöðvarinnar og starfsemi Slippsins er núna. Árið 1945 fékk klúbburinn aðstöðu við Þórunnarstræti, sunnan og ofan við Menntaskólann, þar sem gerður var 9 holu völlur, og þar hafði GA aðsetur allt þar til starfsemin fluttist að Jaðri árið 1970.