Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Gamla íþróttamyndin: héraðslæknir púttar

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – I

Nýr þáttur hefst á Akureyri.net í dag og mun án efa gleðja marga. Gömul íþróttamynd verður birt á hverjum laugardagsmorgni héðan í frá og er það von ritstjóra að myndirnar verði til þess að gamlar sögur rifjist upp.

Lesendur eru hvattir til þess að senda upplýsingar um myndirnar, nöfn fólks, skemmtilegar sögur, hvers kyns ábendingar eða vangaveltur, til þess sem þetta ritar, á netfangið skapti@akureyri.net – það væri ómetanlegt aðstoð í þeirri viðleitni að safna saman sem mestum fróðleik um íþróttalífið í bænum á árum áður.  

Mynd dagsins fékk ritstjóri Akureyri.net fyrir nokkrum árum úr safni Sigtryggs heitins Júlíussonar, hárskera og kylfings. Sigtryggur varð Íslandsmeistari í golfi árið 1946, fyrstur Akureyringa, þegar mótið fór fram á gamla golfvellinum við Þórunnarstræti á Akureyri.

Myndin er einmitt tekin á þeim velli. Það mun vera Jóhann Þorkelsson héraðslæknir sem þarna púttar, en hann var sagður góður í þeim þætti leiksins.v

Akureyri.net fékk eftirfarandi upplýsingar sendar: 

Jóhann Þorkelsson héraðslæknir að pútta, í fjarska eru Hafliði Guðmundsson starfsmaður hjá S.Í.S. og Stefán Árnason hjá Almennum tryggingum og lengst til hægri ónefndur útlendingur.

„Þarna eru þeir að leika norðurhluta vallarins. 2., 4., 5. og 9. flöt voru nyrst á vellinum. Ég fæ ekki betur séð en þeir hafi verið á 2. eða 4. flöt. Takið eftir byggðinni norðan vallar. Þar er Suðurbyggð í dag.“

_ _ _

Golfklúbbur Akureyrar var stofnaður 1935 og er næst elsti golfklúbbur landsins. Fyrst um sinn fékk klúbburinn úthlutað svæði á Gleráreyrum þar sem síðar varð athafnasvæði Slippstöðvarinnar og starfsemi Slippsins er núna. Árið 1945 fékk klúbburinn aðstöðu við Þórunnarstræti, sunnan og ofan við Menntaskólann, þar sem gerður var 9 holu völlur, og þar hafði GA aðsetur allt þar til starfsemin fluttist að Jaðri árið 1970.