Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Búið að nafngreina alla sundkappana

Tekist hefur að nafngreina allt sundfólkið á gömlu íþróttamyndinni sem Akureyri.net birti á laugardaginn. Viðbrögð voru góð strax eftir að myndin birtist og smám saman var fyllt upp í allar eyður.

  • Efst röð frá vinstri: Stefán Tryggvason, Guðmundur Þorsteinsson, Birgir Hermannsson.
  • Miðröð frá vinstri: Vernharð Jónsson, Björn Arason, Angantýr Einarsson, Hákon Eiríksson
  • Fremsta röð frá vinstri: Rósa Pálsdóttir, Ásta Pálsdóttir, Guðný Bergsdóttir, Þórveig Káradóttir, Súsanna Möller.

Myndin er af félögum í sunddeild KA . Stóru íþróttafélögin, KA og Þór, starfræktu bæði sunddeildir áður en Sundfélagið Óðinn var  formlega stofnað 12. september árið 1962.

Þórsarar fengu ekki að fara með rútunni!

Í gögnum á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er að finna forvitnilegar upplýsingar – ótrúlegar, má segja – um aðdraganda stofnunar Sundfélagsins Óðins. Þar segir:

Sundfélagið Óðinn var formlega stofnað á fundi 12. september 1962. Fyrir stofnun félagsins voru sunddeildir í íþróttafélögunum KA og Þór og kepptu sund-iðkendur undir merkjum þeirra félaga eða ÍBA. Samskiptin gengu ekki alltaf nógu vel með þessu fyrirkomulagi og ekki alltaf félagsstjórnum til sæmdar. Um þverbak keyrði þegar Norðurland[s]mót í sundi var haldið á Húsavík árið 1961. Þegar fara átti með keppendur austur fengu keppendur úr Þór ekki að fara með í rútunni og varð það til þess að keppendur úr Þór og KA ákváðu að stofna sameiginlegt félag.

Stofnendur félagsins voru á aldrinum 15-18 ára og voru Óli G. Jóhannsson og Björn Þórisson drifkrafturinn þar að baki. Fyrri stofnfundur var haldinn árið 1961 og á þeim fundi var nafn félagsins ákveðið og að fá Einar Helgason til að teikna merki félagsins. Einnig var kosin stjórn. Í ársskýrslu ÍBA fyrir það ár er sagt að félagar í Óðni séu 16 og þá þegar voru drengir farnir að keppa undir merkjum Óðins. Formlegi stofnfundurinn er samt sem áður sagður 12. september 1962 en enginn man lengur af hverju stofnun félagsins miðast við það.