Fara í efni
Daniel Willard Fiske

Umferðaröryggisáætlun sextán árum síðar

Myndin sýnir staðsetningu þeirra 50 verkefna sem sett eru í forgang 1 í Umferðaröryggisáætlun Akureyrarbæjar 2025-2030. Skjáskot úr drögum að umferðaröryggisáætlun.

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt nýja umferðaröryggisáætlun 2025-2030 fyrir sveitarfélagið þar sem meðal annars má finna ítarlega aðgerðaáætlun eða framkvæmdalista með um 200 verkefnum sem ætlað er að auka umferðaröryggi í sveitarfélaginu.

Sumar þeirra aðgerða sem finna má í áætluninni eru nú þegar komnar í vinnslu. Aðgerðir og úrbætur eru flokkaðar eftir því hvort þær varða óvarða vegfarendur, innanbæjargötur, þjóðvegi, almenningssamgöngur og svo fræðslu/áróður. Þeim er síðan raðað í fjóra forgangsflokka.

Skjáskot úr drögum að umferðaröryggisáætlun. Myndin sýnir staðsetningu verkefna sem sett eru í flokka 2-4 í forgangsröðun framkvæmdalistans.

Í lokaorðum skýrslunnar er þó tekið fram að með tilliti til umfangs aðgerða megi engu að síður gera ráð fyrir að verkefnalistinn verði ekki fullkláraður við lok gildistíma áætlunarinnar. Almennt séð er lagt til að slíkar áætlanir séu endurnýjaðar eftir fjögur til fimm ár. Að liðnum þeim tíma er því ráðlagt að nýta þá vísa sem í skýrslunni eru til að sjá hvernig til hefur tekist.

Markmið umferðaröryggisáætlunarinnar eru þríþætt:

  • Greina stöðu samgöngumála og umferðaröryggis og hvaða vandamálum bærinn stendur frammi fyrir.
  • Skoða orsakir og umfang slysa og skapa grunn að aðgerðaáætlun.
  • Búa til aðgerðaáætlun sem er liður í því að bæta flæði og aðgengi allra fararmáta, fækka slysum og auka lífsgæði bæjarbúa sem og annarra sem ferðast um bæinn.

Sextán ára bið lokið

Aðdragandi að gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Akureyrarbæ er orðinn nokkuð langur. Síðla árs 2009 undirritaði þáverandi bæjarstjóri, Hermann Jón Tómasson, samning Akureyrarbæjar við Umferðarstofu þar sem bærinn skuldbatt sig til að gera sérstaka umferðaröryggisáætlun með það að markmiði að auka öryggi allra vegfarenda og fækka óhöppum og slysum í umferðinni.

Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi við Oddeyrargötu, hefur látið sig umferðaröryggi varða og meðal annars gagnrýnt að umferðaröryggisáætlun skuli ekki hafa orðið formlega til fyrir löngu. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þó unnið hafi verið að umferðaröryggismálum á ýmsan hátt frá þeim tíma varð ekkert úr því að útbúin yrði sérstök umferðaröryggisáætlun fyrr en nú og hefur það verið gagnrýnt nokkuð, meðal annars ítrekað í umfjöllun akureyri.net um umferð og öryggismál í Oddeyrargötunni snemma árs 2023. Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi við Oddeyrargötuna, fullyrti í umfjöllun 2023 að umferðaröryggisáætlunin væri ekki til vegna þess að hún hefði hreinlega gleymst eftir að tilkynnt var um áðurnefndan samning bæjarins við Samgöngustofu.

Andri Teitsson, þáverandi formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, andmælti þeirri fullyrðingu og sagði töluverða vinnu hafa verið lagða í ýmsa þætti hennar og ráðið hafi fjallað um mikilvægi þess að ljúka við heildstæða áætlun. 

Ábendingar íbúa og víðtækt samráð

Hreyfing komst loks á málið í fyrra og var óskað eftir tilboðum í gerð áætlunarinnar. EFLA verkfræðistofa bauð 5,9 milljónir í verkefnið og hefur nú skilað af sér umferðaröryggisáætlun sem bæjarráð hefur samþykkt. 

Akureyrarbær auglýsti eftir ábendingum frá íbúum í nóvember í fyrra, um það hvernig bæta mætti umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Í framhaldinu voru svo haldnir samráðsfundir með fulltrúum Vegagerðarinnar, þar sem farið var yfir fyrstu drög að slysagreiningu og tekið við ábendingum.

Þessi gangbraut yfir Þórunnarstrætið voru á meðal þess sem lesendur akureyri.net nefndu sérstaklega þar sem þörf væri á úrbótum til að auka umferðaröryggi. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þegar frétt akureyri.net um íbúasamráðið var deilt á Facebook-síðu miðilsins komu fram fjölmargar ábendingar í athugasemdakerfinu og má gera ráð fyrir að þær hafi margar verið á sömu nótum og þær ábendingar sem sendar voru inn í könnuninni. Áberandi var bæði í athugasemdum lesenda og svo í þeim ábendingum sem bárust í könnuninni að öryggi gangandi vegfarenda (óvarðir vegfarendur) er íbúunum hugleikið. Nær fjórar af hverjum tíu ábendingum vörðuðu óvarða vegfarendur eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

Skjáskot úr drögum að umferðaröryggisáætlunninni sem sýnir fjölda ábendinga íbúa, flokkaðar eftir því hvers eðlis ábendingarnar voru. Eins og sjá má snúast nær fjórar af hverjum tíu ábendinganna um öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Með hliðsjón þróun í fjölda slysa og óhappa ásamt ábendingum frá íbúum og samráðsaðilum hefur verið sett saman aðgerðaáætlun fyrir úrbætur í umferðaröryggismálum í sveitarfélaginu. Þar er að finna um 200 aðgerðir og verkefni með stuttri lýsingu á því sem gera þarf, raðað í fjóra forgangsflokka.

Nokkur gatnamót í bænum eru nefnd sérstaklega varðandi fjölda óhappa og slysa. Þar á meðal eru þessi gatnamót Borgarbrautar og Dalsbrautar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Nokkur gatnamót nefnd sérstaklega

Við vinnslu áætlunarinnar var meðal annars unnin greining á slysum og óhöppum sem orðið hafa á undanförnum árum. Um niðurstöðu þeirrar greiningar segir meðal annars að þó slysin virðist nokkuð dreifð um bæinn megi sjá samþjöppun á nokkrum stöðum og nokkur gatnamót nefnd sérstaklega í því sambandi: 

  • Þórunnarstræti og Miðhúsabraut
  • Oddeyrargata og Brekkugata
  • Hlíðarbraut við Borgarbraut
  • Glerárgata við Strandgötu, Tryggvabraut og Undirhlíð
  • Dalsbraut við Borgarbraut

Skjáskot úr drögum að umferðaröryggisáætlun. Myndin sýnir staðsetningu slysa og óhappa á Akureyri á árunum 2019-2023.

Mikilvægt að fylgja vel eftir

Í lokaorðum skýrslunnar kemur meðal annars fram að alvarleg slys í sveitarfélaginu séu að stórum hluta á óvörðum vegfarendum og því lögð sérstök áhersla á umferð þeirra í aðgerðalistum. Lagt er til að farið verði í endurskoðun leyfilegs hámarkshraða á götum sveitarfélagsins, slíkar aðgerðir styðji við áherslur sveitarfélagsins í samgöngumálum.

Um framkvæmdalistann segir í lokaorðum skýrslunnar: „Verkefni á framkvæmdarlista eru misstór en öll munu þau stuðla að bættu umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Áætlað er að tekið sé tillit til umferðaröryggisáætlunar við gerð árlegra fjárhagsáætlana sveitarfélagsins en þó er nokkuð ljóst að erfitt verður að fara í allar aðgerðir sem lagðar eru til. Að því leytinu til er því mikilvægt að aðgerðaráætlun sé fylgt vel eftir.“