Fréttir
Öryggi gangandi er íbúum hugleikið
10.12.2024 kl. 06:00
![](/static/news/lg/thorunnstraeti-adal-bj5a7716.jpg)
Gangbraut yfir Þórunnarstræti á milli Íþróttahallarinnar og gamla húsmæðraskólans þar sem nú er skammtímavistun fyrir fötluð börn á vegum Akureyrarbæjar.
Öryggi gangandi vegfarenda – til að mynda með fleiri gangbrautum, gangbrautarljósum sem lifa lengur, betri lýsingu við gangbrautir, almennari notkun endurskinsmerkja og fleiru í þeim dúr – virðist lesendum Akureyri.net hugleikið ef marka má athugasemdir þegar frétt okkar um ábendingagátt Akureyrarbæjar um bætt umferðaröryggi var deilt á Facebook fyrir nokkru.
Umferðarflæði með samstillingu ljósa, hringtorgum, aðreinum/fráreinum/útskotum og fleiru kemur einnig fyrir í nokkrum athugasemdum á mismunandi vegu. Einnig nefna lesendur útsýni vegna trjágróðurs, aðferðir við snjómokstur, gerðir hraðahindrana og umferðarhraða á tilteknum götum, svo nefnt sé það helsta og algengasta sem kom fram í athugasemdunum. Akureyri.net er ekki kunnugt um hvort allar þessar athugasemdir hafa ratað inn í athugasemdagáttina hjá Akureyrarbæ, en upplýst hefur verið að þar hafi borist 656 ábendingar. Alls komu fram 65 athugasemdir á Facebook þegar fréttinni var deilt.
![](/static/files/_blob/cova2i9tei59sxd0p3vdz7.jpg)
Gatnamót Hjalteyrargötu og Tryggvabrautar.
Samráðsfundur
Í síðustu viku var haldinn samráðsfundur á vegum Akureyrarbæjar þar sem saman komu fulltrúar frá lögreglu, Samgöngustofu, Vegagerðinni, foreldrafélögum og öðrum hagsmunahópum. Tilgangurinn var að móta stefnu umferðaröryggisáætlunarinnar og fá yfirlit um stöðu umferðaröryggismála á Akureyri.
Ráðgjafarfyrirtækið EFLA vinnur að gerð umferðaröryggisáætlunarinnar fyrir Akureyrarbæ. Berglind Hallgrímsdóttir, fulltrúi fyrirtækisins, kynnti verkefnið og fóru fram virkar umræður í framhaldi af kynningunni. Markmiðið er að auka öryggi í bænum, fækka slysum og auka lífsgæði bæjarbúa sem og fólks sem ferðast um bæinn. Áætlað er að umferðaröryggisáætlunin verði tilbúin á vormánuðum 2025.
Börnin merkja eigin gönguleiðir
Auk þess sem íbúum gafst kostur á að senda inn ábendingar hafa skólarnir fengið senda stafræna könnun þar sem börn merkja inn gönguleiðir sínar í skólann og staði sem þau upplifa sem hættulega.
![](/static/files/_blob/0uch3cebhzgjtpxs7csc5ho.jpg)
Gatnamót Dalsbrautar og Borgarbrautar.
Akureyri.net hefur ekki upplýsingar um hvað kom helst fram efnislega í ábendingum íbúanna, en til fróðleiks er hér útdráttur eða samandreginn listi með helstu atriðum sem fram komu í Facebook-athugasemdunum, ásamt loftmynd af Akureyri þar sem staðir sem nefndir voru í athugasemdunum hafa verið merktir.
Umhugað um öryggi gangandi
Óvísindaleg yfirferð og samantekt á athugasemdum lesenda við fréttina á Facebook leiddi eftirfarandi meginatriði í ljós. Til glöggvunar hafa þeir staðir sem nefndir voru í athugasemdunum verið merktir inn á kortið neðst í fréttinni.
- GANGBRAUTIR – Flestar athugasemdir við fréttina tengdust gangbrautum, staðsetningu þeirra, ónógri lýsingu, tímalengd gangbrautarljósa og öryggi gangandi vegfarenda almennt. Gangbraut yfir Þórunnarstræti við Íþróttahöllina var nefnd nokkrum sinnum, einnig yfir Skólastíg við Brekkuskóla, gatnamót Drottningarbrautar og Aðalstrætis (við athafnasvæði Nökkva), gatnamót Þórunnarstrætis og Hamarstígs, Löngumýrar og Hamarstígs og mót Skipagötu og Kaupvangsstrætis. Einnig voru nefnd gatnamót Kjarnagötu og Ljómatúns (og að þar vantaði hraðahindrun), Hlíðarbraut við Réttarhvamm og gatnamót Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar. Bent var á hliði, sem ætti að draga úr hraða hjólandi og hlaupandi á gangstétt milli hringtorga við Dalsbraut, væri ítrekað lyft upp og þá var nefnt að gangbrautir vantaði hreinlega við Norðurgötu. Bætt lýsing á götum almennt var líka nefnd.
Gatnamót Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar.
- ENDURSKINSMERKI – Gera þarf átak í að auka notkun endurskinsmerkja, samkvæmt athugasemdum lesenda. Einn lagði til að lögfest yrði að nota skuli endurskinsmerki, annar að auka upplýsingagjöf um hvernig best er að auka sýnileika.
- UMFERÐARFLÆÐI er lesendum hugleikið og voru nokkur gatnamót nefnd þar sem þyrfti að koma hringtorg eða ljós. Þetta eru mót Borgarbrautar og Dalsbrautar, Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar, Tryggvabrautar og Hjalteyrargötu. Nefnt var að fjarlægja ætti þrengingar á Krossanesbraut og hækka hámarkshraða aftur í 50 km/klst., fjölga aðreinum og fráreinum, samstilla umferðarljós á Þingvallastræti, einnig að vanti aðreinar, fráreinar eða útskot á nokkrum stöðum við Hlíðarbraut til að flýta fyrir.
- UMFERÐARHRAÐI var líka nefndur og Kjarnagatan sérstaklega í því sambandi. Þar væri ekið of hratt og sveigjurnar næðu ekki tilgangi sínum.
- SNJÓMOKSTUR – Breyta vinnulagi við snjómokstur þannig að ekki safnist í hrúgur við gatnamót og skerði útsýni. Ætti að teljast jafnalvarlegt og ölvunarakstur.
- TRJÁGRÓÐUR – Ganga harðar fram gegn ofvöxnum trjágróðri sem byrgir sýn og heftir umferð. Þar voru til dæmis nefnd Þórunnarstræti frá Þingvallastræti niður að Hólmasól, gatnamót Þverholts og Krossanesbrautar og mót Langholts og Miðholts.
- FARSÍMAR – Beita háum sektum við notkun farsíma, banna notkun líka þó beðið sé á rauðu ljósi.
- HUGARFAR KRAKKA – Þið sem sjáið um þetta fyrir Akureyrarbæ, skellið ykkur í göngutúr með hugarfar 5-10 ára krakka, var tillaga frá einum lesanda. Þá sæi fólk hvar hætturnar liggja.
- REYKJAVÍK – Höfuðborgin var merkt í einni athugasemdinni með þeim orðum að borgin mætti endilega „koma á þennan vagn“.
Helstu staðir sem nefndir voru í athugasemdum og farið yfir í listanum hér að ofan. Rauðir punktar sýna staði þar sem gangbrautir voru nefndar af ýmsum ástæðum, fjólublátt hefur með umferðarhraða og umferðarflæði að gera. Guli punkturinn sýnir „skrýtna hringtorgið við Kristjánshaga sem veldur meiri vandræðum en það leysir“ og blái hringurinn minnir á að alltof margir ökumenn halda sig eiga réttinn þegar ekið er inn á og út af bílastæðinu við Íþróttahöllina.