Fara í efni
Daniel Willard Fiske

„Nú leyfum við rykinu aðeins að setjast“

„Að hugsa um það núna, að nærri því fjögur ár séu liðin, síðan kirkjan brann, líður mér næstum því eins og það hafi verið í fyrradag,“ segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar í Grímsey. Vígsluathöfn hinnar nýju Miðgarðakirkju fór fram í gær, sunnudag, þar sem fjöldi manns lagði leið sína til eyjunnar. „Það hefur margt gerst á þessum tíma, og við erum ofboðslega ánægð með að þetta er búið,“ bætir Alfreð við.

Það átti að vígja kirkjuna á Jónsmessu, en þá var athöfninni aflýst vegna veðurs. Þrátt fyrir svolítin rigningarúða núna um helgina, var þó fært í eyjuna og vindurinn hagstæður. „Við erum hæstánægð með daginn þegar kirkjan var vígð,“ segir Alfreð. „Það voru um það bil 200 manns sem kom í eyjuna í júní, þegar átti að vígja, og margir komu aftur núna, þó að ekki allir kæmust.“

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, vígir Miðgarðakirkju í Grímsey. Þarna má líka sjá hluta kórr Möðruvallaklausturskirkju  sem söng við athöfnina.

„Þetta er búið að ganga ágætlega heilt yfir,“ segir Alfreð, þegar hann er beðinn að líta um öxl á þessu tæpu fjögur ár sem hafa liðið. „Það hikstaði svolítið þegar við urðum að stöðva framkvæmdir, vegna þess að fjármögnunin var búin og við vildum ekki koma okkur í skuld. Þá fór söfnunin í gang aftur og við fengum myndarlega fjárveitingu frá ríkissjóði upp á 47 milljónir, og með því að fá svo ótrúlega mikið af áheitum víðsvegar að af landinu, gátum við klárað dæmið.“

Frábær hljóðvist í nýju kirkjunni

„Nýja kirkjan er miklu víðara og betra hús, auk þess sem talað er um að hljóðvistin sé einstaklega góð,“ segir Alfreð. „Það var hljóðhönnuður sem kom að hönnun kirkjunnar með Hjörleifi Stefánssyni arkitekt, og við vonumst auðvitað til þess að tónlistarfólk landsins vilji koma og flytja tónlist sína í kirkjunni. Í gömlu kirkjuna kom oft frábært tónlistarfólk.“

Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar í Grímsey, og Pálmi Matthíasson, fyrrverandi sóknarprestur í Miðgarðasókn, í kirkjunni þegar til stóð að vígja hana í júní.

Tónlistin fékk að óma á vígsluathöfninni, en þar mætti Möðruvallakirkjukór, og taldi um það bil 30 manns. Stjórnandi og undirleikari kórsins var Sigrún Magna Þórsteinsdóttir. Þórður Sigurðarson organisti á Dalvík, lék einnig undir.

Helgihald á faraldsfæti síðustu árin

Grímseyingar hafa þurft að vera skapandi þegar kemur að því að leysa málin án þess að hafa kirkju. „Við höfum haldið messur í félagsheimilinu, á veitingahúsinu Kríunni og svo höfum við líka haldið athafnir og messur í kirkjunni fokheldri. Þar var til dæmis eitt brúðkaup árið 2022, þar sem hengdar voru upp seríur og skreytingar og kirkjan var mjög hugguleg, þrátt fyrir að vera alveg hrá að innan,“ segir Alfreð.

Því var fagnað í september 2022 að kirkjan var orðin fokheld. Frá vinstri, Arna Björg Bjarnadóttir verkefnisstjóri, Inga Lóa Guðjónsdóttir og Hilmar Páll Jóhannesson frá Loftkastalanum, Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Alfreð Garðarsson sóknarnefndarformaður. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Ekki alveg búið

„Það er ekki alveg allt tilbúið, við eigum eftir að flísaleggja kirkjuna og leggja parket upp á kórlofti. Einhver smíðaverkefni eru eftir líka, smíða hillur og svona smotterí,“ segir Alfreð. „Rafvirkjarnir eiga svo eftir að koma og ganga frá útilýsingunni, setja kastara í garðinn og við göngustíginn. Við förum ekkert í gólfin fyrr en í vetur, það er ágætt að leyfa rykinu aðeins að setjast. Allir búnir að fá nóg í bili.“

„Við erum rosalega fegin að vígslan er búin,“ segir Alfreð, aðspurður um það hvort að hann upplifi eitthvert spennufall á þessum fína mánudegi. „Þetta tókst svo vel, svo mörg sem komu og það gekk upp bæði flug og ferja. Það var góð stund í kaffisamsæti í Múla eftir vígsluna, með hlýjum kveðjum og dagurinn var góður í alla staði.“ 

Miðgarðakirkja brann til kaldra kola í september 2021; fyrri myndin er tekin að kvöldi 21. september og sú til hægri morguninn eftir.