Fara í efni
Dagbækur Sveins Þórarinssonar

Fyrstu jól Sveins og Sigríðar í Nonnahúsi

Í dag birtist 18. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en í vetur verða birtar færslur aðra hverja viku. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Jólin 1865

Í desember 1865 héldu Sveinn og Sigríður upp á fyrstu jólin eftir að þau settust að í Nonnahúsi. Bogga var 11 ára, Nonni 8 ára, Manni 4 ára og Friðrik 1 árs en líkt og jólin 1863 minntist Sveinn ekkert á þau fyrr en á gamlársdag þegar hann taldi upp hversu gamlir allir fjölskyldumeðlimirnir yrðu á komandi ári. Sveinn varð mjög veikur rétt fyrir jól og það setti sinn svip á hátíðarhöldin. Hann hélt þó upp á aðfangadag með fjölskyldu sinni hjá Havsteen amtmanni þar sem hann minnist á jólagjafir en telur þó ekki upp hver fékk hvað, líkur eru á því að a.m.k. börnin hafi fengið nýja flík. Maddama Vilhelmína Lever bauð í jólaboð annan í jólum en Sigríður virðist hafa farið ein til hennar með börnin. Sveinn notaði mikið magn ópíumdropa til að reyna að halda sér gangandi en það virðist hafa virkað misvel. Einhver hefur rifið nokkrar blaðsíður úr dagbókinni og því vantar færslurnar frá 1. til 4. desember og 29. til 30. desember, auk fyrri hluta færslunnar frá gamlársdegi þar sem Sveinn var vanur að skrifa stutt yfirlit yfir árið og hagi sína.

Sérstök jólasýning er nú í Nonnahúsi þar sem gestir geta lesið fleiri jólafærslur úr dagbókum Sveins.

5. desember 1865

Logn og frost. Eg sat á kontorinu 12 tíma og journaliseraði sunnan bréf. Amtm. lítur ekki við neinu. BF Kristj. Jónssyni. Magazin frá Pali Sveinssyni.

6. desember 1865

Sunnan þýðviðri. Eg sat einn á kontorinu lauk við að journalisera, byrjaði að concipera.

7. desember 1865

Frost og bjartviðri. Eg sat á kontóri að concipera, þreyttur á sál og líkama. Jón Kristjansson byrjaði að hreinskrifa. Amtm. hyggur ekki að neinu.

8. desember 1865

Sunnan gola gott veður. Eg sat og hreinskrifaði bréf austur frá kl. 8 f.m. til kl. 11 e.m.

9. desember 1865

Sama veður. Eg sat við skriptir af kappi bjó um öll bréf með austan pósti um nóttina og kláraði hann. BF Sra Þorði um ljós til Glæsibæar kirkju. Eg sendi Skjóna minn út að Möðruvollum til göngu meðan gott er veður.

10. desember 1865 - 2 S. í Jólaföstu

Sunnan hlývindi. Ekki messað. Eg skrifaði og sendi með posti BT Jóns Frímanns Kristjanssonar. BT Sigurbjörns fékk BF Þórarni bf.m. Skoðaði Ljósmyndir með k.m. um kvöldið.

11. desember 1865

Sunnan hlývindi. Eg sat á kontori allan dag til kl. 12 em. BT Þorarins br.m. Níels postur helt heðan austur.

12. desember 1865

Sunnan frostgola og úrsynningur. Eg sat við skriptir vestur. K.m. steypti kerti. Þjófnaður útí bæ.

13. desember 1865

Frostgola og úrsynningur. Eg sat á kontorinu allan dag. Eg keypti 9 ísuspirðubönd fyrir 90s. BT Sra Þorðar.

14. desember 1865

Sunnan froststormur. Eg sat a kontórinu, skilaði spítalareikningi mínum. Þorst var sendur að Glæsibæ með ljós og um leið að Hofi.

15. desember 1865

Sunnan hvassviðri með hláku og rigningu. Hús láku mjög. Eg sat á kontórinu. I morgun drukknaði J. Mohr í buðargilslæknum. Vatnavextir urðu fjarka miklir og dæmalausir.

16. desember 1865

Sunnan hláka. Eg var á kontóri um daginn, heima um kvöldið. BF Fr. Od. BT Fr. Od. & BT Fr. Os. Hér vóru margir Svarfdælir og fékk eg nokkur umboðsgjöld.

17. desember 1865 - 3 S í Jolaföstu

Sunnan hláka, Ekki messað. Afmæli Christins Havsteen. BF Einari á Grímsnesi BT hans aptur.

18. desember 1865

Sama veður. Eg sat allan dag á kontorinu. Jóhanna yfirsetukona kom til veru fyrst um sinn til amtmanns til að sitja yfir frúnni.

19. desember 1865

Sunnan frostgola. Eg sat á kontórinu. Þorsteinn kom loksins heim úr ferðalagi sínu. Eg varð lasin á kontorinu fór heim kl. 7 e.m. fékk ákafan blóðhósta með miklum uppgangi, varð veikur og lagðist.

20. desember 1865

Sama veður. Eg lá veikur af blóð og graptrar uppgangi. Amtm. heimsókti mig. Olgeir í Garði kom og færði k.m. Lax og magál. BF Jóhannesi í Saltvík fekk ekki hið umbeðna veð í Heðinshöfða.

21. desember 1865 - Sólhvörf skemstr dagr.

Sunnan frostgola. Eg lá í rúminu með blóð og slím uppgangi og beinverkjum. Jón Kristjánsson drekkur nú stöðugt og fæst ekki til að gjöra neitt fyrir amtmann.

22. desember 1865

Norðan hríðarfjúk. Eg lá með uppgangi. Eg leitaði Finsens, fékk meðöl. Eg lét kaupa ýmislegt til jólanna.

23. desember 1865

Sunnan hláka, Mér skánaði, eg klæddist gekk útí kaupstað.

24. desember 1865 - 4 S. í Jolaföstu, Aðfangadagur

Sunnan vindur með rigningu. Ekki messað. Eg borðaði miðdagsmat hjá amtm. kl. 6 var svo ásamt 3 börnum mínum þar um kvöldið til kl.11 við jólatré, jólagjafir, leiki etc. for eg svo heim mjög lasin og háttaði snemma.

25. desember 1865 - Jóladagur

Sunnan rigning, messað. Eg for í kirkju en var mjög veikur af mér og lá mestalla vokuna lasin með vondum blóð og graptrar uppgangi.

26. desember 1865 - Annar í jólum

Sunnan frostgola og bjartviðri, Ekki messað. Jólaborð var hjá Vilhelminu og for k.m. og börnin þangað. Eg drakk nokkra bittersnapsa með Jóni Stephanssyni um kvöldið.

27. desember 1865

Sunnan hlaka og rigning. Eg var utí amtmannshúsi um daginn var kontorið enn flutt úr einu verelsi í annað. Um kvoldið lá eg veikur af eymd margfaldri.

28. desember 1865

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg sat á kontóri, lauk við að afskrifa allt í journal, hafði vondan uppgang. Eg fékk BF Sra Jóni Austmann hvarí hann sem erfingi [...]

31. desember 1865

[...] heilsulasleika míns. Þann 24 September kom amtmaður að vestan og settist hér að geðveikur eins og áður. Eg hefi alltaf gengið heimanað frá mér útá kontórið, og hefir mér verið þetta örðugt og varla fært í illviðrum. Hinn 19 Dec. varð eg magnlega veikur með miklum graptrar uppgangi og bloðhósta; hefi eg samt síðan pínt mig til að halda áfram við skriptir með því að taka inn daglega fjarska mikið af Laudanum, en er alltaf mjög veikur.

Eg hefi nú nógan forða fyrir mig og mína, en er niðurþrykktur af skuldum sem á mér hvíla.

Heimilisfólk mitt er nú:

  1. Eg
  2. Kona mín
  3. Björg dóttir mín
  4. Jón Stephán sonur minn
  5. Armann –//–
  6. Friðrik –//–
  7. Þorsteinn Björnsson vinnumaðr
  8. Olöf Olafsdóttir vinnukona
  9. Hildur Snorradóttir barnfóstra etc.

Eg hefi 2 kýr og 3 hesta eins og að undanförnu, annan pening eingan.

Afmælisdagar

minn og minna, sem verða á árinu 1866.

Eg 45 ára 17 Marts

Kona mín 40 ára 14 August

Sigríður sál dóttir m. 13 ára 15 Febrúar

Björg d.m. 12 ára 11 Maí

Armann sál sonur m. 11 ára 11. October

Jón Stefán s.m. 9 ára 16 Nóvembr

Armannía Sigríðr sál d.m. 6 ára 23 Sept

Armann s.m. 5 ára 8 Sept

Friðrik s.m. 2 ára 4 Nóvembr

Janúar eða nóttleysumanuður 1866

1. janúar 1866 - Nýársd

Frost og bjartviðri. Ekki messað. Eg lá dauðveikur í ruminu með graptraruppgangi og Feber.

2. janúar 1866

Norðan frostgola og hríðarlegt. Eg var mjög veikur kvaldi mig til að yfirfæra um stund. Larus í Brekku gisti hjá mér.

3. janúar 1866

Frost og bjartviðri. Eg yfirfærði dauðveikur í journalinn tók inn Laudanum mér til fróunar.

4. janúar 1866

Norðan frosthríð. Eg yfirfærði um stund, lá að oðru leyti með kvölum, hósta og tæringu.

5. janúar 1866

Frost og bjartviðri. Eg ýmist lá eða yfirfærði. Páll Magnusson og Eggert Gunnarsson höfðu forgefins reynt að útvega mér fasteignarveð útí Hörgárdal. BF Sra Guðjóni.

6. janúar 1866 - Þrettándi

Austan frosthríð. Eg lá að mestu leyti með kvolum í rúminu gat ekkert aðhafst, tærist meir og meir.

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

K.m.: kona mín

Br.m.: bróðir minn

Concipera: afrita?

Laudanum: ópíumdropar

Feber: hiti