Fara í efni
Bogfimi

Glæsilegur árangur Akurs á Íslandsmótinu

Fulltrúar Akurs á Íslandsmeistaramótinu. Frá vinstri: Alfreð Birgisson, Ásgeir Ingi Unnsteinsson, Anna María Alfreðsdóttir, Rakel Arnþórsdóttir, Lena Sóley Þorvaldsdóttir og Izaar Arnar Þorsteinsson. Viktoría Fönn Guðmundsdóttir var fjarverandi þegar myndin var tekin.

Fulltrúar íþróttafélagsins Akurs stóðu sig afar á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi innanhúss um fyrri helgi; þrír urðu Íslandsmeistarar í einstaklingskeppni auk þess sem tvö lið félagsins fögnuðu einnig Íslandsmeistaratitli. Að auki slógu fulltrúar Akurs tvö Íslandsmet.

Feðginin Alfreð Birgisson og Anna María Alfreðsdóttir unnu þrjá titla af þessum fimm og eru þetta fyrstu sigrar þeirra í einstaklingskeppni á Íslandsmóti.

Izaar Arnar Þorsteinsson er hins vegar vanur að fagna sigri á þessum vettvangi; hann sigraði í keppni með berboga á Íslandsmeistaramóti í sjötta skipti í röð!

Akur vann einnig eitt silfur og eitt brons í einstaklings keppni og eitt silfur í liðakeppni á mótinu til viðbótar við fimm Íslandsmeistaratitlana.

Íslandsmeistaratitlar Akurs:

  • Trissubogi karla einstaklinga – Alfreð Birgisson.
  • Trissubogi kvenna einstaklinga – Anna María Alfreðsdóttir.
  • Berbogi karla einstaklinga – Izaar Arnar Þorsteinsson.
  • Trissubogi blandað lið – Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson skipuðu lið Akurs.
  • Berbogi kvenna lið – Lena Sóley Þorvaldsdóttir, Rakel Arnþórsdóttir og Viktoría Fönn Guðmundsdóttir skipuðu lið Akurs.

Íslandsmet Akurs á mótinu:

  • Anna María Alfreðsdóttir setti Íslandsmet í útsláttarkeppni trissuboga með 145 stig; hún sigraði í fullorðinsflokki en metið er í flokki 21 árs og yngri. Anna átti metið sjálf, 143 stig, setti það á Evrópumeistaramótinu innandyra í febrúar þar sem hún endaði í fjórða sæti í flokki 21 árs og yngri.
  • Undankeppni berboga kvenna liða – 769 stig.

Vert að nefna að Lena Sóley Þorvaldsdóttir vann gullið í keppni með langboga, en telst ekki Íslandsmeistari þar sem langbogi er ekki orðin formleg keppnisgrein á mótinu.

„Verið er að bæta við langbogaflokki á Íslandsmeistaramótum til þess að greina áhuga á keppnisgreininni og hvort að eigi að brjóta þá keppnisgrein frá berbogaflokki á Íslandsmeistaramótum í sér keppnisgrein. Langbogi er ekki skilgreindur í regluverki World Archery um markbogfimi og því mun það þurfa smá aðlaganir á regluverki til þess að koma þeim bogaflokki fyrir á Íslandsmeistaramótum formlega, en BFSÍ mun skoða að gera það ef nægur áhugi er á næstu árum á langboga sem sér keppnisgrein,“ segir á vef Bogfimisambands Íslands.

Íslandsmeistaramótið var haldið í Bogfimisetrinu í Reykjavík 5. og 6. mars. 44 keppendur tóku þátt.

  • Í frétt á vef Bogfimisambands Íslands er hægt að horfa á alla úrslitaleikina. Smellið hér til þess.