Fara í efni
Bogfimi

Gæðin komu í ljós og Þór vann Völsung

Ibrahima Balde hleypur fagnandi að áhorfendstúkunni eftir að hann kom Þór í 2:1 með stórglæsilegu marki seint í fyrri hálfleik. Myndir: Ármann Hinrik

Þórsarar gerðu góða ferð til Húsavíkur í gærkvöld þar sem þeir sigruðu Völsunga 5:2 í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Stigin þrjú sem Þór tók heim með sér gera það að verkum að liðið er komið í 2. sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir.

Njarðvík er í efsta sæti með 37 stig, Þór er með 33 og einnig ÍR, sem telst þó í þriðja sæti vegna lakari markatölu en Þór. Þvínæst er Þróttur með 32 stig og HK er með 30 stig.

Framundan eru spennandi dagar því strax á sunnudaginn leika Þórsarar gegn ÍR-ingum í Reykjavík og annan laugardag kemur lið Njarðvíkinga í heimsókn til Þórs. Þá verða þrjár umferðir eftir af hinni hefðbundnu 12 liða deildarkeppni; Selfoss - Þór,  Þór - Fjölnir og Þróttur - Þór. Efsta liðið að loknum 22 umferðum vinnur sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar en næstu fjögur fara í umspil um annað laust sæti þar.

  • Þórsarar fengu óskabyrjun í gær því Rafael Victor skoraði á þriðju mínútu. Ismael Salmi Yagoub jafnaði fyrir Völsung á 19. mínútu, tveimur mínútum eftir að Elfar Árni Aðalsteinsson samherji hans skaut framhjá úr víti.
  • Staðan var jöfn allt þar til tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá gerði Ibrahima Balde annað mark Þórs með frábæru skoti úr vítateignum eins og sjá má á myndum Ármanns Hinriks hér að neðan. Hinn 16 ára Einar Freyr Halldórsson tók aukaspyrnu langt úti á velli og sendi boltann inn í teig, varnarmaður skallaði frá en Balde gerði sér lítið og tók boltann á lofti og þrumaði honum efst í fjærhornið.

  • Áður en flautað var til hálfleiks hafði Einar Freyr Halldórsson komið Þór í 3:1. Þessi magnaði 16 ára strákur skoraði þá með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu utan vítateigs. Sendi boltann yfir varnarvegginn og efst í hornið fjær án þess að Ívar Arnbro Þórhallsson, markvörður Völsungs, ætti minnstu möguleika á að vera. - Sjá myndirnar hér að neðan.

  • Hafi brekkan verið orðin brött fyrir Húsvíkinga þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik varð hún enn brattari strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks þegar Kristófer Kristjánsson kom Þór í 4:1 með skoti af stuttu færi. Myndin hér að neðan er af marki Kristófers.

  • Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn í 4:2 um það 10 mínútum seinna en Sigfús Fannar Gunnarsson gerði fimmta mark Þórs laust fyrir miðjan hálfleikinn. Hann var óvaldaður í markteignum og skallaði boltann í opið markið eftir laglega fyrirgjöf Rafaels Victor. Myndirnar hér að neðan eru af marki Sigfúsar Fannars.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni