Fara í efni
Bogfimi

Þórsarar unnu og eru komnir upp í 2. sæti

Þórsarar fagna eftir að þeir komust í 2:1 seint í fyrri hálfleik með stórglæsilegu marki Ibrahima Balde, sem er þriðji leikmaður frá vinstri. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar gerðu góða ferð til Húsavíkur í kvöld þar sem þeir sigruðu Völsunga 5:2 í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Stigin þrjú sem Þór tók heim með sér í kvöld gera það að verkum að liðið er komið í 2. sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir.

Rafael Victor skoraði fyrir Þór strax á þriðju mínútu en Ismael Salmi Yagoub jafnaði fyrir Völsung á 19. mínútu, tveimur mínútum eftir að Elfar Árni Aðalsteinsson samherji hans skaut framhjá úr víti.

Staðan var jöfn allt þar til tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá gerði Ibrahima Balde annað mark Þórs með frábæru skoti úr vítateiginum og áður en flautað var til hálfleiks hafði Einar Freyr Halldórsson komið Þór í 3:1. Þessi magnaði 16 ára strákur skoraði þá með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu utan vítateigs.

Hafi brekkan verið orðin brött fyrir Húsvíkinga þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik varð hún enn brattari strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks þegar Kristófer Kristjánsson kom Þór í 4:1. Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn í 4:2 um það 10 mínútum seinna en Sigfús Fannar Gunnarsson gerði fimmta mark Þórs laust fyrir miðjan hálfleikinn.

Njarðvík vann Fjölni 2:1 í kvöld og er efst með 37 stig. ÍR var í öðru sæti en tapaði 3:1 fyrir Þrótti og missti Þór upp fyrir sig; Þór og ÍR eru bæði með 33 stig en Þór telst ofar vegna betri markatölu. Þróttur er með 32 stig, HK tapaði fyrir Selfossi í kvöld og er áfram með 30 stig og Keflavík, sem Grindavík, er komið í 28. Framundan er því mikil og spennandi barátta; efsta liðið fer beint upp í Bestu deildina en næstu fjögur fara í umspil um annað laust sæti þar.

Nánar í fyrramálið.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni