Fögnuðu 10 ára afmæli með stæl – MYNDIR

Fjallahlaupið Súlur vertical var þreytt í 10. skipti á laugardaginn og hér er boðið til mikillar myndaveislu úr hlaupinu í tilefni afmælisins.
Hæst bar, eins og Akureyri.net hefur þegar greint frá, að Elísa Kristinsdóttir bætti brautarmet kvenna í 100 kílómetrum um 90 mínútur! Elísa hljóp vegalengdina á 10 klukkutímum, 45 mínútum og 17 sekúndum og fyrsti karlinn, Felix Starker, kom rúmum klukkutíma á eftir Elísu í mark.
Ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson, upphafsmaður þessa vinsæla fjallahlaups árið 2016, sem sigraði í 100 km í fyrra, hljóp í þetta sinn 43 km og bætti brautarmetið um rúma mínútu; Þorbergur Ingi hljóp á rúmum fjórum klukkustundum – 4:01:58. Gamla brautarmetið setti Þorsteinn Roy Jóhannsson árið 2023.
Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í 100 km hlaupinu í fyrra, hljóp þá á rúmum 12 klukkustundum – 12:14:33, og það var brautarmetið þar til Elísa stórbætti það á laugardag. Elísa varð í öðru sæti í fyrra á 13:12:44 þannig að tími hennar nú var nærri tveimur og hálfum klukkutíma betri en á síðasta ári!
Um 650 hlauparar tóku þátt í viðburðinum sem fram fór í blíðskaparveðri en á sumum köflum leiðarinnar var heldur hvasst að mati hlauparanna. Allt gekk þó vel fyrir utan að einn keppandi sneri sig illa á ökkla. Viðkomandi var staddur langt inn á Glerárdal þannig að gripið var til þess ráðs að félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, óku á svokölluðum böggí-bíl þangað inn eftir og sóttu hlauparann.
- Frétt Akureyri.net á laugardaginn: Bætti brautarmetið í 100 km um 90 mínútur