Fara í efni
Bogfimi

Fæðingardeildin fær tæpar 1,7 milljónir

Litríkar og girnilegar bollakökur, nokkrar af þeim 2.784 sem voru bakaðar fyrir Mömmur og möffins í ár. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Þegar við teljum saman söluhagnað af möffinssölunni og frjáls framlög, þá höfum við náð að safna 1.675.000 krónum,“ segir Sigríður Ásta Pedersen, önnur skipuleggjenda Mömmur og möffins. „Upphæðin er met, en við söfnuðum metupphæð í fyrra, sem var um ein og hálf milljón og stefndum á að toppa það í ár. Það tókst, sem er ótrúlega gaman. Við erum ótrúlega þakklátar þeim sem styrktu okkur.“

Mömmur og möffins er orðin órjúfanleg hefð um verslunarmannahelgi á Akureyri, en í ár er 15. árið sem hópur kvenna tekur sig til og bakar möffins til þess að selja gestum Einnar með öllu. Ágóðinn af sölunni rennur til fæðingardeildarinnar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sigríður Ásta Pedersen og Bryndís Björk Hauksdóttir skipulögðu viðburðinn í ár.

Bökuðu óvart aðeins of mikið

„Markmiðið er ekki endilega að baka meira á hverju ári, heldur að baka ekki of mikið og ná að selja allt,“ segir Sigríður Ásta. „Við settum okkur markmið í ár að selja 2.500 stk. og við náðum því. Við bökuðum reyndar óvart 2.784 möffins, og þær sem seldust ekki fóru á Hlíð til þess að gleðja íbúa og hörkuduglega starfsfólkið þar.“

 

Sigríður Ásta Pedersen og Bryndís Björk Hauksdóttir, skipuleggjendur Mömmur og möffins í ár. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Mikil undirbúningur að baki

Bollakökur detta ekki af himnum ofan, það eru fjölmargir sjálfboðaliðar sem aðstoða við undirbúning, sem er mjög tímafrekur. En þetta snýst ekki bara um að baka og selja. „Mikil vinna fer í undirbúning og samræður við styrktaraðila, þ.e.a.s. sækja um styrki og svoleiðis,“ segir Sigríður Ásta. „Viðburðurinn hefur farið sífellt stækkandi með þar af leiðandi hærri kröfum á hreinlæti, fleiri sjálfboðaliðum og meiri skipulagningu. Bakstur og skreytingar gengu heilt yfir vel fyrir sig, en við hefðum viljað fleiri hendur yfir daginn á fimmtudag og föstudag.“

„Stefnan verður ekki á að baka jafn mikið á næsta ári, við ákváðum að gera svona mikið í þetta sinn vegna 15 ára afmælis Mömmur og möffins og eru við ótrúlega þakklátar fyrir þær sem byrjuðu á þessu og hafa staðið að þessu fyrstu 13 árin,“ segir Sigríður Ásta að lokum. „Þær mæður voru öflugir dugnaðarforkar með hjartað á réttum stað.“