Fara í efni
Bogfimi

Anna María keppir um brons á EM í bogfimi

Anna María Alfreðsdóttir keppir um bronsverðlaun á Evrópumótinu í Slóveníu.

Anna María Alfreðsdóttir úr íþróttafélaginu Akri á Akureyri, keppir um bronsverðlaun í flokki 21 árs og yngri á Evrópumeistaramótinu í bogfimi innandyra á laugardaginn. EM fór að þessu sinni fram í borginni Lasko í Slóveníu.

Anna María keppir með trissuboga. Í undanúrslitum í dag, þar sem keppt var um hvor kæmist í leikinn um gullverðlaun og hvor keppti um brons, mætti Anna tyrknesku stúlkunni Lok Songul. Viðureignin var gífurlega spennandi þar sem þær skiptust á að hafa forskot. Eftir næst síðustu umferðina var Lok með tveggja stiga forskot og í þeirri síðustu gaf sú tyrkneska ekkert færi a sér og skaut fullkomið skor – fékk 30 stig og Anna tapaði því 145-141.

Fyrr í dag mætti Anna dönsku stúlkunni Pil Munk Carlsen í átta manna úrslitum og sigraði 143-142 í mjög spennandi leik. .

Anna er aðeins annar Íslendingurinn sem keppir um verðlaun í flokki 21 árs og yngri á Evrópumeistaramóti. Guðbjörg Reynisdóttir gerði það fyrst árið 2019, en hún keppir í dag í átta manna úrslitum fullorðinna á EM.

Anna María á EM í Slóveníu. Myndir frá Archery.is