Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

SA-konur unnu Fjölni í framlengdum leik

Silvía Rán Björgvinsdóttir tryggði SA sigurinn með marki í framlengingu í dag og fagnaði vel ásamt liðsfélögunum. Skjáskot úr YouTube-streymi.

Kvennalið SA í íshokkí vann lið Fjölnis í framlengingu eftir jafnan hörkuleik í Egilshöllinni í dag. Þetta er í þriðja skiptið á tímabilinu sem SA-konur vinna í framlengingu í átta leikjum, en liðið fer ósigrað á toppi Toppdeildarinnar inn í jólafríið.

Fyrsta lotan var markalaus, en snemma í annarri lotu fengu bæði liðin mjög góð tækifæri til að opna markareikninginn. Hvorugu liðinu tókst þó að skora í annarri lotunni, þrátt fyrir hörkuleik og tækifæri og því enn markalaust fyrir síðasta þriðjunginn.

Það voru svo ekki liðnar nema 90 sekúndur af þriðju lotunni þegar bæði lið höfðu skorað. Fyrst skoraði Kolbrún Björnsdóttir fyrir SA eftir aðeins 26 sekúndna leik í þriðju lotunni, eftir stoðsendingar Sólrúnar Össu Arnardóttur og Sveindísar Sveinsdóttur. Rúmri mínútu síðar jafnaði Elísa Dís Sigfinnsdóttir leikinn fyrir Fjölni.

  • 0-1 - Kolbrún Björnsdóttir (40:26). Stoðsendingar: Sólrún Assa Arnardóttir, Sveindís Marý Sveinsdóttir.

Baráttan um að koma inn sigurmarkinu var hörð og talsvert um refsingar í þriðju lotunni, en fleiri urðu mörkin ekki og því gripið til framlengingar. 

  • 1-1 - Elísa Dís Sigfinnsdóttir (41:35).

Eins og í þriðju lotunni var liðin innan við hálf mínúta þegar gullmarkið kom. Silvía Rán Björgvinsdóttir tryggði þá SA aukastigið með marki eftir aðeins 24 sekúndur, og aftur átti Sólrún Assa stoðsendingu, nú ásamt Magdalenu Sulovu.

  • 1-2 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (60:24). Stoðsendingar: Sólrún Assa Arnardóttir, Magdalena Sulova.

Þetta er í þriðja skipti í átta leikjum sem SA klárar dæmið í framlengingu, en liðið hefur tvisvar unnið SA og nú Fjölni í framlengdum leik, hina fimm leikina vann liðið í venjulegum leiktíma og er í efsta sæti Toppdeildarinnar með 21 stig úr átta leikjum. SA-konur eru komnar í jólafrí frá deildinni, en SR og Fjölnir mætast á þriðjudaginn. SR er í 2. sæti deildarinnar með 11 stig, en Fjölnir náði sér í sitt fyrsta stig í leiknum í dag.

  • Fjölnir - SA 1-2 (0-0, 0-0, 1-1, 0-1)

Fjölnir

Mörk/stoðsendingar: Elísa Dís Sigfinnsdóttir 1/0.
Varin skot: Karítas Halldórsdóttir 33 af 35 (94,3%).
Refsimínútur: 10 mínútur.

SA

Mörk/stoðsendingar): Kolbrún Björnsdóttir 1/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0, Sólrún Assa Arnardóttir 0/2, Sveindís Marý Sveinsdóttir 0/1, Magdalena Sulova 0/1. 
Varin skot: Shawlee Gaudreault 12 af 13 (92,3%).
Refsimínútur: 4. 

Leikskýrslan.

Staðan í deildinni.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins að venju og hægt að horfa á upptöku af honum þar.